Náttúrumæraskrá Héraðs á vefnum
Meðal þeirra gagna sem byggt var á við mótun aðalskipulags fyrir Fljótsdalshérað er gríðarlega umfangsmikið ritverk sem Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur á Egilsstöðum, hefur tekið saman og hann nefnir Náttúrumæraskrá. Þar lýsir Helgi landslagi og örnefnum á rúmlega 600 stöðum og svæðum auk annarra atriða í náttúrufari Fljótsdalshéraðs, svo sem plöntum, fuglum og fiskum. Náttúrumæraskráin er aðgengileg gegnum vef Fljótsdalshéraðs, www.fljotsdalsherad.is.
Skrá Helga er mjög skipulega fram sett. Öllu Héraðssvæðinu er skipt í 13 undirsvæði sem aftur skiptast í griðlönd, en þar hefur Helgi tengt saman nálæga staði og svæði. Ákveðið var að reyna að miðla þessum mikla fróðleik á nútímalegan og aðgengilegan hátt á vefnum.
Fyrsta skrefið var að fá Helga til að afmarka helstu svæði í landupplýsingakerfi Alta og tengja lýsingu hvers svæðis við afmörkunina. Þessar upplýsingar voru síðan tengdar við landupplýsingavefsjá þar sem greinargott yfirlit fæst yfir þessi svæði. Á vefsjánni má finna um 250 helstu svæði sem voru afmörkuð en í textaham má slá upp öllum svæðunum. Gert er ráð fyrir að ljósmyndum verði smátt og smátt bætt inn í textann eins og við á.