Ný endurgerð af Sögu Borgarættarinnar frumsýnd á Seyðisfirði um helgina

Í tilefni aldarafmælis Sögu Borgarættarinnar, fyrstu kvikmyndarinnar sem tekin var upp á Íslandi, verður ný endurgerð hennar frumsýnd samtímis á þremur stöðum á landinu sunnudaginn 3. október klukkan 15:00. Staðirnir þrír eru eftirfarandi: Hof á Akureyri, Bíó Paradís í Reykjavík og Herðubreið á Seyðisfirði. Endurgerðin er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunnar, Kvikmyndasafns Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.


Saga Borgarættarinnar, kvikmynd sem Nordisk Film Kompagni framleiddi eftir samnefndri skáldsögu Gunnars Gunnarsson, var frumsýnd í Kaupmannahöfn árið 1920 og var í leikstjórn Gunnars Sommerfeldt. Aldarafmælið var í fyrra en seinka þurfti frumsýningu endurgerðarinnar vegna heimsfaraldursins. Kvikmyndin var tekin upp á Íslandi frá ágúst til október árið 1919 og fór Íslendingurinn Muggur með aðalhlutverk hennar.


Saga Borgarættarinnar fékk ljómandi viðtökur hjá íslensku þjóðinni eftir að hún var frumsýnd snemma árs 1921. Hún hefur síðan lifað með þjóðinni og er litið á hana sem upphaf íslenskrar kvikmyndagerðar, þrátt fyrir að myndin sé í raun dönsk. Íslendingar eiga mjög stóran þátt í henni þar sem þeir störfuðu við hana, hún var tekin upp hérlendis, byggð á sögu eftir Íslending og Íslendingur fór með aðalhlutverkið.


Kvikmyndasafn Íslands hefur séð um endurgerð myndarinnar undanfarin ár, en myndin var einungis til í mjög slæmu ásigkomulagi. Jón Stefánsson, sérfræðingur stafvæðingar og endurgerðar hjá Kvikmyndasafni Íslands, sá um endurgerð myndarinnar. Hann var með í höndunum tvær negatífur sem báðar voru illa farnar, önnur frá Danmörku og hin fannst hér á landi. Hann studdist við 16mm sýningarkópíu sem sýnd hafði verið á Íslandi til að púsla myndinni rétt saman. Vinna Jóns fólst m.a. í því að púsla saman negatífunum tveimur til að fá sem besta mynd, því stundum var efnið ónýtt á annarri en í bærilegu ástandi á hinni.


Tónskáldið Þórður Magnússon var fenginn til þess að semja nýja tónlist við myndina og verður hún frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands yfir myndinni í Hofi á Akureyri á sunnudaginn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.