Nýjum hinsegin fána flaggað við ME í jafnréttisviku

Ný útgáfa af regnbogafánanum, sem táknar aukinn fjölbreytileika hinsegin samfélagsins, var dreginn að húni við Menntaskólann á Egilsstöðum við lok árlegrar jafnréttisviku skólans í síðustu viku.

Regnbogafáninn hefur undanfarin ár blakt við skólann. Fyrir fimm árum kom fram ný útgáfa af honum þar sem fleiri litir bætast við til að endurspegla betur fjölbreytileika hinsegin samfélagsins. Skipt var um fána við ME á föstudaginn.

Í síðustu viku var haldin jafnréttisvika skólans. Hún byggir á einu þriggja gilda skólans, en hin tvö eru virðing og gleði. Á hverju ári er ein vika helguð hverju þeirra. Virðingin er tekin fyrir í september og snýst um umhverfið en gleðivikan er á vorin.

Þar eru meðal annars haldin fræðsluerindi, svo sem um verkefnið Sjúk ást sem snýst um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi eða rætt um einelti á degi eineltis síðasta miðvikudag. Kennarar eru hvattir til að viðfangsefnið inn í kennsluna með einhverjum hætti.

Í gegnum vikuna var lestrarátak þar sem nemendur og starfsfólk voru hvött til að lesa bækur sem tengjast jafnrétti eða mannréttindum.

Föstudagurinn var helgaður fjölbreytileikanum. Skólinn var skreyttur með regnbogalitum og fólk hvatt til að mæta í skrautlegum klæðnaði ásamt fleiru, svo sem regnbogakökunni sem var eftirrétturinn í hádeginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.