Nýtt kaffihús opnað á Hallormsstað

Kaffihúsið Inn í skógi opnaði á Hallormsstað í lok júní í húsnæðinu sem árum saman hýsti sjoppuna Laufið. Þar er meðal annars í boði heimabakaðar kökur og sérréttir á sunnudögum. Hópurinn að baki kaffihúsinu segir tækifæri hafa komið upp í hendurnar á þeim sem þau hafi stokkið á.

Undanfarin sumur hefur ísbúð verið rekin í húsinu með tengingar við Hótel Hallormsstað. Sylwia Goda hefur nú tekið við kyndlinum ásamt manni sínum, Kacper Zabczyk og bróður sínum Mateusz Golda.

„Okkur langaði til að gera hér stað þar sem fengist kaffi og gott bakkelsi og fólk staldraði lengur við. Við höfum búið hér á svæðinu um hríð og höfðum tilfinningu fyrir því hvað vantaði.“

Þau skipta með sér verkum. „Við erum ekki lærðir bakarar eða annað slíkt en leggjum saman þá reynslu sem við höfum. Bróðir minn er sá sem bakar mest. Hann hefur alltaf haft áhuga á bakstri og eldamennsku svo þetta er tækifæri fyrir hann til að sýna sig. Ég lagði meira í að gera staðinn huggulegan. Til viðbótar við kaffi og kökur eru þau með ís, drykki og þemarétti suma sunnudaga.

Þau koma öll frá Kraká í Póllandi en hafa að undanförnu sest að á Héraði. Sylwia og Kacper eyddu hér þremur sumrum við veitinga- og þjónustustörf áður en Kacper fluttist alfarið fyrir tveimur árum eftir að hafa fengið vinnu hjá Skógræktinni á Hallormsstað. Sylwia og Mateusz fluttu svo alfarið fyrir ári. Mateusz býr í Fellabæ en Sylvia og Kacper búa á Hallormsstað og segjast una sér þar vel. „Okkur hafa boðist tækifæri til að flytja í Egilsstaði en við ætlum að vera hér í bili.“

Afhenda á Egilsstöðum


Opið er á morgnana frá 8-11 og 18:30-21:00 á kvöldin virka daga en 11-21 um helgar því kaffihúsið er enn sem komið er aukavinna þríeykisins. Opnunartímarnir geta þó stundum verið sveigjanlegri en þá er það auglýst á samfélagsmiðlum kaffihússins.

Sylwia vinnur sjálf í Húsi handanna á Egilsstöðum og getur því stundum boðið fólki að panta bakkelsi frá kaffihúsinu og fá afhent á Egilsstöðum. „Við höfum fengið jákvæð viðbrögð frá fólkinu á svæðinu en það er ekki alltaf tilbúið að keyra inn í Hallormsstað þannig okkur finnst gott að geta afhent stundum á Egilsstöðum. Við erum alveg með hugmyndir í framtíðinni að bæta fleiri sortum og brauði við.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar