Nýtt lag frá Guðmundi R. og og plata á leiðinni

Ný plata norðfirska tónlistarmannsins Guðmundar R., sem fengið hefur nafnið Einmunatíð, kemur út á föstudag. Fyrsta lagið af henni, „Skrifað í skýin,“ hefur þegar fengið mikla spilun í útvarpi og komist inn á vinsældalista Rásar 2.

„Lagið er rokkari í hressari kantinum sem ég samdi síðasta haust,“ segir Guðmundur í tilkynningu um útgáfuna.

„Í um mánuð dvaldi ég í Seldal inn af Norðfirði. Ég horfði yfir fjörðinn og heimabæinn minn og hugsaði um örlög vinar míns sem þá lá fárveikur á sjúkrahúsi. Það er samið á kassagítar og gæti verið fjarskyldur ættingi Ferðar án enda sem ég söng með vinum mínum í SúEllen fyrir mörgum árum.

Einnig er þetta auðvitað undir áhrifum Bruce og Bubba og einhverjir heyra Pretenders áhrif. Ég er aldrei feiminn að vinka góðlátlega til gamalla átrúnaðargoða,“ segir hann.

Einmunatíð verður fjórða breiðskífa Guðmundar en áður hafa komið út Íslensk tónlist (2007), Þúsund ár (2017) og Sameinaðar sálir (2020).

„Síðustu tvær plötur hef ég unnið með upptökustjóranum Jóni Ólafssyni og eins er með þessa,“ segir Guðmundur. „Ólíkt hinum tveimur er þessi plata að mestu unnin í hljóðverinu hans Jóns í Reykjavík og með hljóðfæraleikurum úr bænum. Svo tók ég ýmislegt upp sjálfur heima hjá mér svo sem söng, básúnu og fleira. Þá byrjaði ég að læra á píanó í heimsfaraldrinum og samdi nokkur lög plötunnar á það hljóðfæri. Það hafði óneitanlega áhrif en ég hef í gegnum tíðina samið lögin mín á gítar.“

Fleiri norðfirskir tónlistarmenn koma við sögu á plötunni. Bjarni Halldór Kristjánsson, gítarleikari SúEllen og bassaleikarinn Guðni Finnsson.

Forsala á disknum er hafinn en hann verður gefin út í takmörkuðu upplagi. „Auðvitað kemur platan líka á streymisveiturnar en flestir tónlistarmenn á Íslandi fá nánast engar tekjur af streymissölu. Sala disksins er því um leið fjármögnun á verkefninu,“ segir hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.