Öllum boðið í Vísindakaffi Rannsóknarseturs HÍ á Breiðdalsvík

Annað árið í röð stendur Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík fyrir svokölluðu Vísindakaffi þar sem fræðast má bæði um störf setursins en jafnframt hlýða á forvitnileg erindi. Rannís mun nú sem þá bjóða gestum upp á kaffi og kleinur

Viðburðurinn var fyrst haldinn fyrir ári síðan og segir María Helga Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri setursins, að það hafi tekist vel upp og full ástæða til að bjóða aftur í kaffibolla enda séu verkefnin margvísleg og breytileg ár frá ári. Yfirskriftin nú sé Jarðargæði -frá bújörðum til háfjalla.

„Þetta tókst vel í fyrra og mæting góð þó við viljum alltaf sjá fleiri og vonum að allir áhugasamir sláist í hópinn með okkur í dag. Fyrir utan almenna fræðslu um starfsemina, verkefnin og þær sýningar sem þar eru innandyra þá verða flutt tvö erindi. Ég fjalla annars vegar um mínar eigin vettvangsferðir og hvernig aðferðum er beitt við kortlagningu jarðfræði á Austurlandi. Svo ætlar hann Sigurður Max Jónsson, búfræðingur og bóndi að Skjöldólfsstöðum, að segja frá meistararannsókn sinni á plöntunæringarefnum í ræktunarjarðvegi en það erindi á erindi við alla þá sem stunda einhverja ræktun og ýmislegt forvitnilegt sem hann kemur inn á í erindinu.“

Vísindakaffið er í húsi Rannsóknarsetursins í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík og hefst klukkan 17 í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar