Önnur tveggja jarða sem lengst hafa verið setnar af sömu ættinni

Um helgina kemur út bókin „Bustarfell: Saga jarðar og ættar“ þar sem rakin er ábúðarsaga jarðarinnar Bustarfells í Vopnafirði, sem sama ættin hefur setið í 490 ár. Ritstjóri útgáfunnar segir þessa samfelldu sögu gera býlið einstakt.

Bókin byggir á tveimur handritum sem varðveitt eru á bænum og hafa hvergi birst á prenti. Annars vegar er það handrit Einars Jónssonar, prests á Hofi, frá 1930 um sögu jarðarinnar fyrir 1532 og ættir og afkomendur hjónanna sem hófu búskap þar það ár og marka upphaf ábúðarsögunnar.

Hins vegar er það handrit Methúsalems Methúsalemssonar, bónda á Bustarfelli, frá 1957 sem leggur meiri áherslu á sögu ábúenda og búskapar á jörðinni.

Finnur Ágúst Ingimundarson hefur búið handritin til útgáfu auk þess að bæta við efni um bæði jörðina og ábúendur en útgáfan fékk öndvegisstyrk frá Safnaráði. „Ég er ekki af ættinni sjálfur en var þar í sveit mörg ár og hef unnið bæði á búinu og í minjasafninu. Þá hef ég einnig búið tvo vetur á staðnum og unnið á uppsjávarvertíðum og sláturtíð, og þannig bundist bundist Vopnafirði, einkum Bustarfelli og fjölskyldunni þar, sterkum böndum.

Ég hafði um nokkurn tíma séð fyrir mér að gefa handritin út og rætt það við Björgu Einarsdóttur,bónda á Bustarfelli og safnstjóra til margra ára.. Sumarið 2020 ílengdist ég svo á bænum og hófst þá handa við að gera alvöru úr fyrirætlunum mínum. Það vatt síðan upp á sig og bókin varð meiri að vöxtum en ég hugði. Ég bætti við skýringum við handritin tvö sem og efni sem ég tók saman sjálfur, til dæmis búskaparsögu Bustarfells frá því Methúsalem lýkur við sitt handrit til okkar daga og fleiru,“ segir Finnur um hvernig það kom til að hann laðaðist að sögunni.

Sextánda kynslóðin tekin við

Innsýn í ættarsöguna má einnig sjá í Minjasafninu á Bustarfelli, torfbæ sem er að stofni til1770 og búið var í fram yfir miðja síðustu öld. Myndir af safnkosti og ábúendum jarðarinnar prýða bókina en útgáfunni verður fagnað þar á laugardag. Þar mun Finnur Ágúst meðal annars segja frá bókinni og tilurð hennar.

En það sem stendur upp úr eftir rannsóknavinnuna og gerir söguna á Bustarfelli sérstaka er hve lengi ættin hefur setið jörðina. „Núverandi ábúendur eru af sextándu kynslóð og það er nær einstakt hér á landi. Raunar er aðeins ein önnur jörð Skarð á Skarðsströnd, sem hægt er að nefna í sömu andrá. Þar er ættarsagan lengri og nær aftur á 12. öld

Eins og rakið er í bókinni hefur samfellan í ættarsögunni á Bustarfelli stundum staðið tæpt og minnstu mátt muna að hún rofnaði. Það hefur þó enn ekki skeð og styttist nú í að ættin fagni 500 ára ábúðarafmæli á jörðinni, en það verður árið 2032.

„Þetta hefur stundum staðið tæpt Methúsalem Einarsson, sem fæddist árið 1850, fékk taugaveiki eins og öll systkini hans og móðir. Þau létust öll og Methúsalem lá fyrir dauðanum en jafnaði sig.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.