Ofgnótt af bláberjum

Mikið virðist vera af bláberjum á Austurlandi um þessar mundir svo lyngið hreinlega svignar undan þungum klösunum. Aðrar tegundir virðast styttra á veg komnar.

„Það er ofgnótt af bláberjum alls staðar. Sumir klasarnir á lynginu eru eins og vínber í Frakklandi, fullur af þroskuðum, flottum berjum,“ segir Þóra Guðmundsdóttir, arkitekt og berjaáhugamanneskja á Seyðisfirði.

Hún á sumarbústað í Hjallaskógi á Fljótsdalshéraði og þar tíndi hún ber um síðustu helgi. „Á næstu þúfu við bústaðinn tíndi ég 10-12 lítra. Ég hef líka heyrt í fólki hér á Seyðisfirði sem hefur sömu sögu að segja héðan,“ segir hún.

Hún segir sprettuna mest bundna við bláberin, hún hafi séð aðalbláberjalyng en lítið um ber á því. „Aðalbláberjalyngið er heilbrigt og fínt að sjá en hefur ekki borið ávöxt enn.“

Eins sé enn nokkuð um óþroskuð bláber svo fólk hafi enn tímann fyrir sér að fara í berjamó. Hrútaberin segir Þóra enn ekki fullþroskuð en hún sé bjartsýn á að nóg verði af þeim. Krækiberjum kveðst hún ekki hafa horft eftir.

Góð berjaspretta vekur athygli því vonirnar voru ekki miklar eftir kalda og þurra maí- og júnímánuði og afar þurran júlí á Austurlandi.

Aðspurð kveðst Þóra ekki vera á leið í berjamó í hlýindunum í dag heldur sé hún að undirbúa að vinna úr því sem hún hafi þegar tínt. „Ég er að fara að sjóða krukkur undir sultu. Ég hef alltaf farið með bláberjasultu til Indlands, ég vakúm-pakka henni og færi vinum mínum. Hún verður því á borðum þar ef ég kemst.“

En Þóra nýtir meira en bláberin. „Ég hef gert saft úr krækiberjunum og hlaup úr hrútaberjunum, mér finnst það besta sultan. Síðan tíni ég lerkisveppi og fleiri og þurrka þá eða steiki. Núna ætla ég að gera tilraun til að frysta þá ósteikta og er mjög spennt fyrir því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.