Okkar ein af bestu plötum ársins
Hljómplatan Okkar með austfirsku hljómsveitinni Miri er ein af tuttugu plötum á svokölluðum Kraumslista yfir bestu íslensku plötur ársins.
Kraumslistinn er tekinn saman af 12 aðilum, sem hafa verið virkir í umfjöllun og spilun á íslenskri tónlist í fjölmiðlum. Kraumur er sjóður sem styrkir útflutning íslenskrar tónlistar. Valdar eru tuttugu plötur á listann en verðlaunaplöturnar verða kynntar síðar í mánuðinum.
Vert er að taka fram að plata Jónasar Sigurðssonar og Ritvéla framtíðarinar, Allt er eitthvað, er einnig tilnefnd. Jónas sjálfur bjó um tíma á Austurlandi og tónlistarmenn með austfirskar rætur komu rækilega við sögu við gerð plötunnar.