Olweus í Seyðisfjarðarskóla og á Sólvöllum
Ákveðið hefur verið að innleiða svokallaða Olweusaráætlun í Seyðisfjarðarskóla og í skólahópi leikskólans Sólvalla. Kynningarfundur vegna innleiðingar Olweusaráætlunar gegn einelti og andfélagslegu atferli verður í Félagsheimilinu Herðubreið 13. október kl. 17.00.
Olweusaráætlunin er sérstakt prógram sem miðar að því að takast á við einelti og andfélgslega hegðun. Innleiðing áætlunarinnar í skólastarf er tveggja ára ferli og gert er ráð fyrir virkri þátttöku allra starfsmanna skólans og foreldra nemenda í starfinu.
Á fundinum kynna Þorlákur Helgason framkvæmdastjóri Olweusaráætlunar á Íslandi og Jarþrúður Ólafsdóttir verkefnastjóri Olweusaráætlunina.
Á fundinn eru boðaðir foreldrar og forráðamenn, starfsfólk í leik- og grunnskóla, íþróttahúsi, sundhöll og fulltrúar í fræðslumálaráði.
Allir fullorðnir í skóla og á heimilum bera ábyrgð á að sporna gegn slæmum samskiptum nemenda. Eins og oft hefur komið fram er mikið í húfi því einelti getur, hvort sem er í skóla eða á vinnustað, sett varanlegt mark sitt á líf einstaklinga. Þess vegna er afar mikilvægt að allir sem boðaðir eru mæti á kynningarfundinn.