Opnuðu loppumarkaðinn Fjarðabása á Reyðarfirði

Hjónin Berglind Björk Arnfinnsdóttir og Gunnþór Tumi Sævarsson opnuðu loppumarkaðinn Fjarðabása í Molanum á Reyðarfirði í byrjun júní.

Loppumarkaðir eru í grunninn markaðir með notuð föt sem geta eignast framhaldslíf. Þeir hafa skotið upp kollinum einn af öðrum en fyrir á Austurlandi er Hólagull á Eskifirði. Þá hafa loppumarkaðir verið opnaðir í styttri tíma á fleiri stöðum.

„Þetta er vinsælt víða um heim, enda stemmir slíkt vel við að nýta alla hluti eins vel og kostur er og eins lengi og kostur er. Það hefur sannarlega verið raunin hjá okkur að flestir eru sammála þessari bylgju og sýna þessu framtaki góðan áhuga. Það þarf ekki allt að vera glænýtt öllum stundum,“ segir Berglind

Hjá Fjarðabásum getur fólk pantað sér pláss og komið með þær vörur sem fá þá pláss í hillum verslunarinnar. Fjarðabásar taka 15% gjald af seldri vöru en sjá í staðinn um að koma vörunum snyrtilega fyrir í búðinni auk markaðssetningar á samfélagsmiðlum.

Opið er fimmtudaga og föstudaga frá 14-18 og laugardaga og sunnudaga 12-16. „Við erum að fá alls konar fólk inn til okkar. Bæði bæjarbúa og nærsveitarfólk sem er forvitið um starfsemina, en ekki síður eru erlendir ferðamenn að reka inn nefið og forvitnast um hvað við erum að bjóða upp á.

Berglind og Gunnþór við standsetningu húsnæðisins í Molanum fyrr í sumar. Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar