Páskafjör í Fjarðabyggð
Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, segir að á dagskránni sé að finna viðburði fyrir alla. Þar er skemmtileg dagskrá á skíðasvæðinu og á laugardagskvöldinu koma fram Andri Bergmann, Ína Berglind og Dusilmenni. „Það verður flott að sjá rokkarana í fjallinu,” segir Jóhann. „Það verður líka fjölskylduskemmtun í Valhöll með Línu Langsokk svo það er hægt að finna eitthvað fyrir alla,” segir Jóhann.
Í Tónlistarmiðstöð Austurlands verða tveir tónleikar, fyrst í kvöld þann 5. apríl með Karl Orgeltríó ásamt Sölku Sól og þann 13. apríl með hljómsveitinni ADHD. Í Egilsbúð þann 7. apríl verða Aldamótatónleikar. Þar koma fram Jónsi, Hreimur, Gunni Óla og Einar Ágúst. Hljómsveitarstjóri tónleikanna er Vignir úr Írafár. Ásamt þeim mun DJ Atli halda uppi stemningunni, fyrir og eftir tónleikana.
Það verður opið á Oddskarði alla páskana og Aprés Ski Tortúla Party í Randúlf á föstudeginum.
Sundlaugin á Eskifirði og Stefánslaug verða opnar alla páskana og sundlauga diskó á Eskifirði. „Sundlaugarnar verða opnar lengur og allskonar skemmtilegt,” segir Jóhann.
Svo verða geggjaðir Aldamótatónleikar á föstudaginn langa í Neskaupstað. „Þetta verða standandi tónleikar og hægt að dansa, þetta verða vonandi fjölmennir tónleikar,” bætir Jóhann við að lokum.