Páskahelgin: Guðmundur R. flytur öll bestu lögin
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. apr 2022 09:10 • Uppfært 15. apr 2022 09:15
Norðfirski söngvarinn Guðmundur R. Gíslason heldur stórtónleika í Egilsbúð um helgina þar sem hann flytur sín vinsælustu lög ásamt vinum. Fleiri stórviðburðir eru um helgina en líka smærri fyrir þau sem það kjósa.
Guðmundur mun á tónleikunum annað kvöld flytja vinsælustu lögin frá bæði sólóferli sínum og hljómsveitinni SúEllen. Sérstakir gestir verða Smári Geirsson, Kolbrún Gísladóttir og hljómsveitin Dusilmenni, sem komst í úrslit Músíktilrauna nú í vor.
Í Valaskjálf á Egilsstöðum skellir Páll Óskar í ball sem hefst á miðnætti í kvöld. Annað kvöld verður þar uppistand þar sem margar af bestu eftirhermum Sóla Hólm mæta á sviðið.
Í dag milli klukkan 16 og 18 bjóða listakonan Tinna Þorvalds Önnudóttir og Menningarstofa Fjarðabyggðar gestum að skoða myndverk hennar í Þórsmörk í Neskaupstað. Tinna hefur síðan í byrjun apríl dvalið í Jensenshúsi á Eskifirði þar sem hún hefur teiknað myndir við söguljóð skáldsins Christian Hege, sem byggja á Grimm-ævintýrum. Þau verk og fleiri verða á sýningunni í dag.
Á sunnudag verður árleg ganga Ferðafélags Fjarðamanna út í Páskahelli á Norðfirði. Lagt verður af stað klukkan sex um morguninn frá Norðfjarðarvita í leiðsögn Laufeyjar Þóru Sveinsdóttur.
Þá má minna á páskamessur um víða um fjórðunginn sem og fjölbreytta dagskrá á skíðasvæðunum í Stafdal og Oddsskarði.