Passaðu tvo metrana gæskur/gæska

Starfsmenn Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum leituðu í austfirska málhefð þegar koma þurfti upp merkingum til að áminna gesti stöðvarinnar um að halda tveggja metra samskiptafjarlægð.

„Við höfðum ágætan tíma til að undirbúa sumarið því við þurftum að vera með lokað í tvo mánuði. Við notuðum hann til að hugsa um hvernig við gætum gert þetta huggulegt og staðbundið.

Við vorum í hugarflugi hér þar sem okkur datt í hug að nota þessi gömlu austfirsku orð, gæskur og gæska, vina og vinur,“ segir Karen Erla Erlingsdóttir, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar.

Á gólfi og veggjum stöðvarinnar og sundlaugarinnar eru hjartalega merkingar sem biðja „gæsk“ og „gæsku“ vinsamlegast um að gæta að tveggja metra fjarlægðinni. Orðin hafa löngum sérstaklega verið notuð af Austfirðingum en þau eru samkvæmt íslenskri orðabók vinsamlegt ávarp.

„Við hugsuðum að við þyrftum að hafa eitthvað sem vekur athygli og þetta gerir það, þegar þú sérð hjarta með orði sem þú þekkir ekki frekar en venjulegan hring með smáu letri.“

Karen Erla segist ekki vita til þess að aðrir stafir hafi notað þessa hönnun en skiltin voru gerð og sett upp af fyrirtækinu Bara snilld á Egilsstöðum.

Samkomutakmarkanir út af Covid-19 faraldrinum hafa margvísleg áhrif á starfsemi Íþróttamiðstöðvarinnar. Þannig er í raun aðeins hægt að nota annan hvern fataskáp í búningsklefum og fjöldi í heitum pottum er takmarkaður. „Við höfum skerpt á merkingunum því það komast bara fjórir í annan pottinn.“

Karen Erla segir að sumarið hafi annars verið sérstakt en ágætt í sundlauginni. „Það voru engir erlendir ferðamenn í júní en þeir hafa verið aðaltekjulind okkar á sumrin. Íslendingarnir björguðu júlí fyrir okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.