Perla saman af krafti fyrir krabbameinssjúka

Ef marka má fyrri slíka viðburði má búast við lífi og fjöri í Nesskóla í Neskaupstað síðdegis á morgun þegar þar fer fram stuðningsátakið Perlað af krafti til stuðnings ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein.

Ár hvert greinast kringum 70 ungir einstaklingar á aldursbilinu 18 til 40 ára með krabbamein á Íslandi. Það er þeim og aðstandendum þeirra sérstaklega til stuðnings sem félagið Kraftur hrundi af stað átakinu Perlað af krafti. Þar skal með hjálp allra sem geta gefið stundarkorn perla „Lífið er núna“ armbandið en sala á þeim armböndum er helsta tekjukind Krafts.

Átakið, sem formlega ber yfirskriftina Vertu Perla - Berðu lífið er núna armbandið, vísar til þess að með því að bera það á sér sýnir fólk stuðning ungu fólki sem greinst hefur með þenna illvíga sjúkdóm. Átak ársins hófst fyrir tveimur vikum í Hörpu í Reykjavík þar sem á annað þúsund manns komu saman og perluðu til þessa góða málefnis og nú fer Krafur víða um landið í sömu erindagjörðum. Á milli klukkan 17 og 20 á morgun skal perla sem allra mest í Nesskóla áður en förinni verður svo heitið norður í land til Akureyrar. Allir Austfirðingar sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að mæta á morgun, taka þátt og styrkja þannig mikilvægt málefni en viðburðurinn er í góðu samstarfi við Krabbameinsfélag Austurlands og Krabbameinsfélag Austfjarða.

Frá viðburðinum í Hörpu fyrir skömmu. Þar tókst að perla hvorki fleiri né færri en tæplega 3.600 armbönd. Mynd aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar