Póstkortaveður í upphafi skíðahátíðar

Vetraríþróttahátíðin Austurland free ride festival verður haldin á svæðinu í kringum Oddsskarð um helgina. Skipuleggjandi hátíðarinnar segir mikla stemmingu í byrjun og veðrið lofa góður.

„Ég er staddur uppi í Oddsskarði. Hér er póstkortaveður, blakalogn og bongóblíða. Hvað er hægt að biðja um meira,“ segir Sævar Guðjónsson hjá ferðaþjónustunni Mjóeyri, sem heldur utan um hátíðina.

Hátíðin er nú haldin öðru sinni, reyndar nánast í fyrsta sinn því fella þurfti niður nær allar ferðir í fyrra vegna veðurs. Nú er annað upp á teningnum.

Hátíðin er hin eina sinnar tegundar á Íslandi í ár en með „free ride“ hugtakinu er átt við bretta- og skíðafólk sem velur að renna sér utan hefðbundinna brauta. Þannig verður í kvöld farið úr Oddsskarði niður að Sigmundarhúsum.

Um helgina verða síðan í boði annars vegar gönguferðir og hins vegar bretta- og fjallaskíðaferðir með reyndum leiðsögumönnum. Skúli Júlíusson, fjallaleiðsögumaður, leiðir gönguferðirnar en Rúnar Pétur Hjörleifsson, snjóbrettamaður, hinar. Eins verður um helgina byrjendanámskeið í fjallaskíðum með Jóni Gauta Jónssyni.

Þegar komið er niður úr brekkunum seinni part dags tekur síðan við glaumur og gleði í kringum Randulfssjóhúsið. „Erlendis þekkist „apres ski“ sem eru stuttir, skemmtilegir viðburðir þar sem fólk hittist eftir síðustu ferð dagsins og gerir upp daginn. Það má kannski kalla þetta að afskíða sig,“ segir Sævar.

Hann segir mikinn áhuga hafa verið á hátíðinni og hlakkar því til helgarinnar. „Stemmingin er góð, það er til dæmis að koma mikið af brettafólki og það er vel bókað í ferðir og á námskeiðið. Það eina sem er synd er að geta bara haft 50 manns í sjóhúsinu vegna sóttvarna.

En við finnum mikla jákvæðni. Hingað koma ljósmyndarar og áhrifavaldar þannig ég held að hátíðin í ár sé bara forsmekkurinn að því sem koma skal. Við gerum enn flottar næst.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.