Ræða örlög vegakerfis Kárahnjúkavirkjunar

Fulltrúar Landsvirkjunar og Vegagerðarinnar hittust í gær og ræddu á fundi hverjir gætu orðið hugsanlegir veghaldarar allra þeirra vega og slóða sem orðið hafa til vegna Kárahnjúkavirkjunar og einnig þeirra sem fyrir voru á hinu víðfeðma svæði sem áhrifasvæði virkjunarinnar nær yfir. Engar ákvarðanir hafa verið teknar og eru þessi mál á umræðustigi enn sem komið er. Hreggviður Jónsson tók árið 2004 saman skýrslu um tilurð vega á svæðinu og meðal annars eru þar fjörtíu ára gamlir vegir sem RARIK lét gera. Landsvirkjun og Vegagerðin ákveða hvaða vegi fyrirtækin hyggjast eiga og reka áfram og sveitarfélögin Fljótsdalshreppur og Fljótsdalshérað þurfa svo væntanlega að gera upp við sig hvort og þá hvaða vegi þau hyggjast ábyrgjast sem veghaldarar.

hrafnkelsdalur.jpg

Þeir vegir og slóðar sem út af standa verða þá væntanlega þurrkaðir út eða þeim lokað. Þar á meðal eru slóðar sem haldið hefur verið við vegna hreindýraveiða. Síðustu fjögur árin hafa verið uppi raddir um að halda eigi áfram með veg frá aðrennslisgöngum í Glúmsstaðadal niður í Hrafnkelsdal og yrði það þá þriðji vegurinn í Hrafnkelsdal. Fljótsdalshérað hefur sýnt þessu ákveðinn áhuga, en ekki er ljóst hvort Vegagerðin kærir sig um að gera og viðhalda slíkum vegi. Slík framkvæmd þyrfti í öllu falli að fara í umhverfismat, sem kostað gæti um 30 milljónir króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.