Rannsókn hætt á máli yfirlæknis
Sýslumannsembættið á Eskifirði hefur vísað frá máli yfirlæknis við Heilsugæslu Fjarðabyggðar. Þetta er í annað skiptið sem rannsóknardeild lögreglunnar á Eskifirði vísar máli læknisins frá á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ríkisendurskoðun tók málið upp og kærði til Ríkissaksóknara, sem sendi málið aftur heim í hérað til rannsóknar. Ríkisendurskoðun mun væntanlega í kjölfarið taka afstöðu til hvort kyrrt verður látið liggja eða óskað eftir endurupptöku.
Stuðningsmenn yfirlæknisins á Eskifirði telja víst að yfirlæknirinn muni fara í meiðyrðamál við þá aðila innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) sem upphaflega kærðu hann til lögreglu vegna gruns um fjármálamisferli.
Yfirlæknirinn var sendur í tímabundið leyfi frá störfum í febrúar sl. Stuðningsmenn hans segja hann tilbúinn til að taka aftur við sínu gamla starfi og fagna mjög niðurstöðu þeirri sem fékkst í dag. Hafa Eskfirðingar flaggað við hús sín af þessu tilefni.