Raular jólalög á göngunni í snjónum
Einar Skúlason hóf í gærmorgunn göngu sína frá Seyðisfirði til Akureyrar eftir gömlum þjóðleiðum. Honum sóttist ferðin ágætlega þótt nýfallinn snjórinn væri oft erfiður yfirferðar. Einar segist njóta náttúrufegurðar og söngla jólalög til að stytta sér stundir á leiðinni.Einar fór af stað upp Vestdal, sem gengur inn úr norðanverðum Seyðisfirði, um klukkan átta í fyrramálið. Þaðan lá leið hans yfir á Fljótsdalshérað og kom hann í náttstað á Egilsstöðum eftir um tólf tíma ferðalag.
„Ég fór um 10% leiðarinnar, eina 28 kílómetra. Leiðin var strembin út af snjókomunni síðustu daga. Ég fékk lánaðar þrúgur en það er enn mikið loft undir þannig maður sígur niður í hverju skrefi.
Ef það hefði verið búið að blása þá hefði ég getað ferðast eftir hryggjum. En snjórinn var alls staðar jafnfallinn. Ég hélt ég þyrfti að vaða Gilsá en komst yfir hana á ís, sem var léttur. Kuldinn hjálpar til við að komast yfir svona vatnsföll og ég vona að það verði þannig víðar.
Birtan var annars ótrúlega falleg, rétt eins og í dag,“ sagði Einar við Austurfrétt þegar hann var nýlagður af stað frá Egilsstöðum fyrir hádegið í dag. Hann ætlar ekki langt eftir átökin í gær, aðeins yfir í Fjallssel í Fellum.
Horfir á spor dýranna í snjónum
Hann segist finna mikinn áhuga fyrir göngunni og fólkið sem varð á vegi hans á Egilsstöðum hafi viljað ræða málin. „Það er góð tilbreyting að tala við fólk því ég er mestmegnis einn á göngunni. Ég hef líka fengið margar skemmtilegar athugasemdir á Facebook. Það er gaman hversu margir hafa áhuga. Í morgun gat ég aðeins slakað á og svarað þeim.“
Náttúran og jólalögin voru Einari annars efst í huga á göngunni í gær. „Ég var svolítið að raula línur úr jólalögum. Eitt getur heltekið hann í tvo tíma áður en næsta tekur við. Göngutakturinn kallar fram endurtekningu, maður endurtekur sömu laglínuna ómeðvitað aftur og aftur. Að ganga svona lengi einn er hálfgerð hugleiðsla. Ég raulaði „Jólin eru að koma“ með Prins Póló mikið í gær. Ég hef aldið mikið upp á hann.
Svo horfir maður á umhverfið og dáist að því. Það var gaman að sjá sporin í snjónum, eftir refinn, rjúpuna og mýsnar. Ég sá líka mjög nýleg för eftir hreindýrahjörð en ekkert hreindýr. Þau höfðu verið að krafsa í snjóinn.“
Samkvæmt veðurstöð á Fjarðarheiði fór frostið þar niður í -14°C. Einar kveðst ekki hafa fundið fyrir kuldanum fyrr en í lokin. „Það var bara síðustu tvo tímana. Þegar líður á finnur maður fyrir þreytu. Þá breytast hugsanirnar, maður veltur fyrir sér úthaldinu og hvort eitthvað gerist. Ég reyni að halda neikvæðu hugsunum frá.“