Rebekka Karlsdóttir gætir hagsmuna 14 þúsund stúdenta

Rebekka Karlsdóttir hefur gegnt hlutverki forseta stúdentaráðs síðan í maí í fyrra en starfsári hennar sem forseta fer að ljúka. Þar gætir hún hagsmuna 14 þúsund stúdenta og hefur m.a. barist fyrir betri námslánum og lækkun skrásetningargjaldsins.

Rebekka verður 26 ára á þessu ári en hún er fædd og uppalin í Eiðaþinghá á sveitabæ sem heitir Þrep. Rebekka stundaði nám við Menntaskólann á Egilsstöðum áður en hún fór í háskóla. Hún hefur lokið BA gráðu í lögfræði og tók sér hlé frá námi til að sinna starfinu sem forseti stúdentaráðs en hún stefnir á MA gráðu í lögfræði. Í starfi forseta stúdentaráðs felst að vera málsvari stúdenta sem og daglegur rekstur á skrifstofu stúdentaráðs, þar sem eru 6 aðrir í hlutastarfi.

Stúdentar splæsa

Rebekka segir að hún hafi viljað taka þátt í hagsmunabaráttu stúdenta til að tryggja jafnrétti allra til náms. „Fyrir manneskju sem er að koma utan af landi og stunda nám við Háskóla Íslands eru það stúdentagarðar og námslánin sem skipta miklu máli,” segir Rebekka. Hún segir stærstu málin á þessu ári hafa verið skrásetningargjöldin, þar sem stúdentaráð hefur barist fyrir lækkun þeirra eða afnámi.

Á dögunum fór af stað herferð á vegum stúdentaráðs þar sem bent var á undirfjármögnun HÍ og bar herferðin yfirskriftina ​​„Stúdentar splæsa“, þar sem vísað er í fyrirhugaða hækkun skrásetningargjalda úr 75 þúsund krónum í 95 þúsund krónur. „Við vorum að fá þær fréttir í gær að ráðherra ætli ekki að leggja fram frumvarp sem heimili hækkun skrásetningargjalds og það er gaman að sjá að baráttan er að skila sér,” segir Rebekka.

Annað áherslumál stúdentaráðs síðasta árið hefur verið menntasjóður námsmanna. Árið 2020 kom nýr menntasjóður sem átti að vera betrumbæting á fyrrum námslánakerfi með 30% niðurfellingu námslána ef námi er lokið á tilsettum tíma. „Við höfum verið að vinna skýra og vandaða stefnu stúdentaráðs i námslánum þar sem við bendum á að þrátt fyrir nýja kerfið er staðan sú að stúdentar búa ennþá við ófullnægjandi stuðningskerfi,” segir Rebekka.

Vegna baráttu stúdentaráðs árið 2020 fékkst vaxtaþak á menntasjóð. „Vextir á lánunum fóru upp í þetta þak á dögunum,” segir Rebekka. Hún segir grafalvarlegt að það sé ekki fullnægjandi stuðningskerfi til staðar fyrir stúdenta því lánasjóður eigi að vera félagslegur jöfnunarsjóður. „Það er mikilvægt að þessu verði breytt ef stjórnvöld ætli að ná markmiðum sínum um menntun þjóðarinnar,” segir Rebekka.

Vilja fella niður hluta námslána

Ísland ætti að hafa alla burði til að styðja við sína stúdenta, segir Rebekka og bendir á að 30% niðurfelling ef fólk lýkur námi á réttum tíma komi niður á þeim hópum sem þurfa á mestum stuðningi að halda. Rebekka segir að stúdentaráð vilji að stjórnvöld lækki vextina, og vaxtaþakið

„Við höfum áhyggjur af því að 30% niðurfellingin komi verst niður á þeim sem nái ekki að klára námið sitt á rétt settum tíma, en þetta á að vera kerfi sem hjálpar þeim,” segir Rebekka. „Fólki seinkar í námi út af allskonar ástæðum en til dæmis vegna barneigna. Þetta er heildarkerfi sem spilar allt ekki nógu mikið saman, höfum áhyggjur af þessum niðurfellingarhluta, og viljum fella niður tímamörkin,” segir Rebekka.

Grunnframfærsla námslána er í dag 106.320 krónur en hún var hækkuð um 18% í fyrra. „Þetta á að vera fullnægjandi framfærsla, en fæstir myndu treysta sér að lifa alfarið á þessum peningum,” segir Rebekka.

Ef stúdentar fá ekki nægilegt lán til að lifa af, neyðast þeir til að vinna með fram námi. Þá er námslánið skert vegna frítekjumarks og þá lenda margir í vítahring námslána og vinnu. Námslánin duga ekki til og stúdentar geta ekki hætt að vinna en þá lækka námslánin enn frekar. Stúdentaráð vill koma á tvískiptu frítekjumarki þannig að stúdentum sé ekki refsað fyrir að vinna á sumrin eða með skóla. Tvískipt frítekjumark er annars vegar frítekjumark sem tekur mið af sumarvinnu og hins vegar sem tekur mark af vinnu með fram skóla.

„Fjárfesting í menntun skilar sér margfalt inn í samfélagið og fjármögnun háskóla er grundvallaratriði fyrir framtíð samfélagsins,” segir Rebekka.

Alltaf vilja stuðla að framförum í sínu samfélagi

Rebekka segir áhugavert að koma að austan úr litlu samfélagi. „Fyrir austan búa samtals um 11 þúsund manns og hér er ég ráðin til að gæta hagsmuna 14 þúsund stúdenta. Mér finnst gott að minna mig á hvað þetta er stórt verkefni sem er góður hvati inn í vinnudaginn að muna hvað er undir,” segir Rebekka.

Rebekka kveðst alltaf hafa viljað stuðla að breytingum í sínu nærsamfélagi. „Þegar ég kom í háskólann var þetta mitt nærsamfélag, það er gaman að sjá hvað vinnan hefur áorkað fyrir stúdenta,” segir Rebekka.

Rebekka hefur gegnt ýmsum hlutverkum í hagsmunabaráttu stúdenta síðastliðin ár. Hún var sviðsráðsforseti á félagsvísindasviði auk þess sem hún sat í stjórn Stúdentaráðs og stjórn Félagsvísindasviðs. Hún hefur einnig setið sem fulltrúi stúdenta í kennslumálanefnd háskólaráðs og verið varafulltrúi í Stúdentaráði fyrir verkfræði- og náttúruvísindasvið. Þá hefur hún verið forseti Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands.

Rebekka segir að það sem hafi heillað hana við Röskvu er rauði þráðurinn um réttindi allra til náms. „Hagsmunabarátta stúdenta til náms getur ekki verið annað en félagshyggjumiðuð. Ég hélt að þegar ég tók við starfinu að Covid væri búið, og við gætum farið að keyra hluti í gegn en svo eru búnir að vera mjög erfiðir tímar. Það er erfitt efnahagsástand sem bitnar mikið á stúdentum sem er almennt tekjulágur hópur. Það er mikilvægt að hagsmunabarátta stúdenta sé öflug núna.”

Nýtt stúdentaráð valið

Í dag hefjast kosningar í stúdentaráð og Rebekka segir mikilvægt að allir stúdentar nýti sinn kosningarétt.

Hún kveðst í sínum störfum leggja upp úr því að vera vandvirk og heiðarleg í vinnubrögðum. „Í hagsmunabaráttu er mikilvægt að vera alltaf með allt á hreinu og vinna mjög vönduð vinnubrögð. Það er auðvelt fyrir ráðandi öfl að skjóta stúdenta niður á smávægilegum atriðum, þess vegna er mikilvægt að vera vandvirkur í vinnubrögðum til þess að ná árangri fyrir stúdenta” segir Rebekka um hennar vinnubrögð.

„Vinnan mín sem forseti stúdentaráðs hefur gefið mér dýrmæta reynslu inn í framtíðina,” segir Rebekka að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.