Reist í trú og skyldurækt
Sextíu ára afmæli Möðrudalskirkju var minnst með kvöldmessu í kirkjunni 4. september síðastliðinn. Sr. Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli, rifjaði upp sögu kirkjunnar við það tækifæri.
,,Í Möðrudal á Fjöllum hefur staðið kirkja um aldir. Kirkju er getið í svokölluðum Vilkins-máldaga frá 1397, er þáverandi biskup í Skálholti vísiteraði. Hversu lengi þar á undan kirkja hefur staðið hér er ekki víst, en í Hrafnkelssögu er frá því sagt að er Sámur reið til þings hafi hann komið í Möðrudal og verið þar eina nótt og því ljóst að hér hefur byggð staðið frá því snemma á landnámstíð.
Saga Möðrudals er rík af frásögnum um menn og málefni. Hér er farið hratt yfir og minnst þess að Stefán Einarsson bóndi byggði timburkirkju árið 1904 og kom hún í stað torfkirkju sem fyrir var. Kirkjan sem Stefán lét reisa stóð til ársins 1925 en þá fauk hún í aftakaverðri. Kirkjulaust var svo í Möðrudal til ársins 1949, en þá var vígð þann 4. september kirkja sú sem við þekkjum best.
Jón Aðalsteinn Stefánsson bóndi í Möðrudal reisti þessa kirkju í minningu konu sinnar Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen, en hún lést 23. febrúar 1944. Kirkjan er hans verk, „reist í trú og skyldurækt við aldahefð á staðnum“ (Ágúst Sigurðsson: Forn frægðarsetur). Fullbúin var hún þegar Jón, ásamt Biskupi Íslands hr. Sigurgeiri Sigurðssyni og sex prestum gengu saman í prósessíu til kirkjunnar á vígsludaginn, en við messu þann dag þjónaði sr. Sigurjón Jónsson í Kirkjubæ. „Lauk hátíðinni með veizlu,“ segir sr. Ágúst Sigurðsson í bók sinni Forn frægðarsetur, „sem heimafólk bauð til af viðurtekinni staðarrausn.“
Kirkja Jóns í Möðrudal þykir falleg smíð, falleg í hlutföllum og frágangur vandaður. Hana sér langt að, - vitni um að hér hátt til fjalla og langt frá öllu þéttbýli er að finna helgidóm þar sem skjóls má leita þegar hretviður hugans leita á – þegar glaðst er á góðum degi – þegar þakkað er fyrir farsæla för og beðið þess, að Drottinn láti ekki fót skriðna. (...) En Jón í Möðrudal gerði meira en að reisa kirkju. Hann skreytti hana líka með einstæðri altarismynd, sem sýnir Jesú tala til fólksins af fjallinu. Í Fjallræðu Jesú er að finna kjarnann í boðskap hans. Þennan kjarna hefur Jón viljað minna á og gefa öllum þeim sem til kirkjunnar koma hlutdeild í. (...) Arfur sá sem Jón í Möðrudal skilur eftir er ómetanlegur. Þökk sé afkomendum hans stendur kirkjan í Möðrudal enn traust og einhvern veginn óhagganleg , sama alúð og lögð var í hvert handtak við kirkjusmíðina er nú lögð í viðhald hennar og fegrun svo hún megi áfram bera ljós af ljósi Krists hér hátt til fjalla, svo hún sé áfram merkisberi Jóns Aðalsteins Stefánssonar í Möðrudal,” sagði sr. Lára meðal annars í ræðu sinni í Möðrudal.
Í tilefni afmælisins bárust kirkjunni góðar gjafir. Voru það kaleikur, patína og vínkanna, vatnskanna og glas, tíu þúsund krónur, bænabók og peningagjöf frá Múlaprófastsdæmi, auk þess sem kirkjunni barst í sumar nýr grænn hökull og stóla að gjöf.
-
Mynd/www.kirkja.is