Risasnekkja Ratcliffe heimsótti Vopnafjörð

Snekkjan Sherpa, sem er í eigum Jim Ratcliffe, hafði viðkomu á Vopnafirði um helgina. Snekkjan er í hópi þeirra stærstu í heiminum. Talsverð umferð skemmtibáta hefur verið þar síðustu daga.

Sherpa er númer 233 á listanum yfir stærstu snekkjur hí heimi. Hún er 73,6 metra löng, 13,2 metra breið og ristir 3,4 metra. Drægni hennar er 5200 sjómílur og hún nær allt að 15,7 hnúta hraða. Ratcliffe hefur farið með hana í alþjóðlegar siglingakeppnir.

Til samanburðar má nefna að Hoffell, nýtt skip Loðnuvinnslunnar sem kom til heimahafnar fyrir sléttum mánuði er 75,4 metra langt, 15,6 metra breitt og nær 18,2 hnúta hraða.

Sherpa var smíðum af Feadship í Hollandi árið 2018. Í lýsingu á heimasíðu fyrirtækisins segir að hún hafi verið smíðuð af vönum snekkjueiganda sem áður hafi skipt við stöðina. Hún minni um margt á rannsóknaskip enda hafi eigandinn beðið um iðnaðarútlit og fjölhæfni, þar sem hann sé á ferðinni á fjölbreyttum slóðum. Fínleg smáatriði og lúxus séu þó um borð.

Snekkjan var tekin í slipp fyrr á þessu ári og rúmar 13 gesti í sex svítum auk 22 í áhöfn. Hún mun hafa kostað yfir 120 milljónir dollara í smíði og reksturinn 5-10 milljónir á ári. Snekkjan sást í Aberdeen í norður Skotlandi fyrir viku áður en hún kom til Íslands. Um svipað leyti lentu þrjár þotur á vegum Ratcliffe á Egilsstaðaflugvelli. Sherpa dregur nafn sitt af burðargetunni en er skráð á Cayman-eyjum. Hún er nú úti fyrir Vestfjörðum á leið til Reykjavíkur.

Ratcliffe á einnig aðra snekkjum, Hampshire II. Sú var einnig smíðuð af Feadship, árið 2012. Hún er meiri lúxussnekkja meðan Sherpa má lýsa sem ævintýrasnekkju. Hampshire II er 78 metra löng.

Þó nokkur umferð skemmtibáta hefur verið á Vopnafirði síðustu daga. Inni á firðinum er núna einnig átta metra tréskúta, Sumara of Weymouth en hún kom þangað á sunnudagsmorgunn. Á heimasíðu skútunnar segir að ferðinni sé heitið til austurstrandar Grænlands. Áhöfnin hefur gengið um nágrenni Vopnafjarðar síðustu daga, meðal annars heimsótt Selárdalslaug.

Eigandi hennar er Alasdair Flint hefur siglt henni víða síðustu 30 árin. Hún byggir á hönnun frá 1936 en var smíðuð árið 1990.

Tveir aðrir erlendis skemmtibátar lágu inni á Vopnafirði á sama tíma og hinir tveir á sunnudagsmorgunn.

Mynd: Feadship


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.