Rithöfundakvöld í Kirkju- og menningarmiðstöðinni
Séra Hjálmar Jónsson kynnir ævisögu sína ,,Hjartsláttur” í Kirkju-og menningarmiðstöðinni miðvikudaginn 25.nóvember kl.20.00. Allir hjartanlega velkomnir. Aðgangur ókeypis.
Séra Hjálmar stökk beint á toppinn með Hjartslátt.
Hjálmar tók árið 2007 þátt í uppsetningu Karlakórsins Heimis á sögu Bólu-Hjálmars.
Hjartsláttur séra Hjálmars Jónssonar er mest selda bókin í Bókabúð Máls og menningar samkvæmt metsölulista verslunarinnar sem birtur var á föstudaginn. Í öðru sæti eru Svörtuloft Arnaldar Indriðasonar. Árangur Hjálmars er þeim mun athyglisverðari þegar á það er litið að bókin kom út síðasta daginn sem salan var mæld. Það má því fastlega reikna með Hjartslætti í toppbaráttunni á metsölulistum ársins.
Á heimasíðu Veraldar sem gefur bókina út segir að Hjálmar, sem er Skagfirðingum og Húnvetningum að góðu kunnur, hefur lifað dramatísku lífi. Bernska hans í Biskupstungum og Eyjafirði var full af andstæðum; þar voru bæði einstæðingar á örreitiskotum og skrautleg athafnaskáld, faðir hans flugkappi menntaður vestur í Ameríku en móðir hans sveitastúlka sem undi sér hvergi betur en í túninu heima. Vinnubrögðin voru eins og aftan úr fornöld en síðan var þeim kippt inn í vélvæðingu nútímans.
Hjálmar lýsir í ævisögu sinni, sem nefnist Hjartsláttur, glímunni við Guð, prestskap í Húnavatnssýslu, Skagafirði og í Reykjavík, fjallar um eftirminnileg ár á Alþingi og segir frá ýmsu sem þar gerðist að tjaldabaki. Þá greinir hann frá tildrögum þess að hann sagði skilið við stjórnmálin og gerðist dómkirkjuprestur. Og að sjálfsögðu fylgir með ógrynni af landsfrægum vísum hans.
Saga Hjálmars Jónssonar er full af húmor og gleði en hann hefur líka kynnst myrkari hliðum tilverunnar, bæði í lífi og starfi. Hrífandi bók sem vekur lesandann til umhugsunar um hinstu rök tilverunnar – en kveikir líka bros.
-----------
29. nóvember kl. 16.00
Aðventutónleikar í Kirkju- og menningarmiðstöðinni.
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kór Fjarðabyggðar, Kór Egilsstaðakirkju ásamt barnakórum
Fluttir Þættir úr Hnotubrjótnum eftir Tchaikovsky, - Snjókarlinn (með sögumanni og barnakór) eftir Howard Blake, Mozart og Leroy Andersson.
Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson