Rithöfundalestin 2020: Í ríki Skrúðsbóndans eftir Jón Karl Úlfarsson
Bókin „Í ríki Skrúðsbóndans“ er meðal þeirra bóka sem koma út á Austurlandi fyrir þessi jól. Í bókinni er að finna minningar Jóns Karls Úlfarssonar útvegsbónda um sjómennsku og fiskverkun á Fáskrúðsfirði.Það eru afkomendur Jóns Karls sem gefa bókina út en Jón Karl lést síðasta sumar. Bókin skiptist í tvennt. Annars vegar hafa afkomendurnir skrifað um menninguna í Fáskrúðsfjarðarhreppi á ævi Jóns Karls.
Seinni hluti bókarinnar, sem er þungamiðja hennar, eru frásagnir Jóns Karls á sjómennsku og fiskverkun á Fáskrúðsfirði, en hann vildi miðla þekkingu sinni áfram til komandi kynslóða. Inn í það fléttast síðan lýsingar á mannlífi, náttúru og staðháttum svæðisins.
„Afi hafði lengstu reynslu á sjó sem ég veit um, hann var á sjó í 80 ár. Hann lærði handbrögðin sem ungur drengur af pabba sínum og fleirum á Vattarnesi. Sýn hans á hvernig nálgast á miðin í kringum Skrúð og Fáskrúðsfjörð almennt er einstök,“ segir Jón Karl Stefánsson, sem ritstýrt hefur bókinni.
Rithöfundalestin hefur verið árviss viðburður á Austurlandi þar sem landsþekktir rithöfundar, í bland við austfirska höfunda, hafa lesið upp úr nýútkomnum verkum sínum. Rithöfundalestin 2020 er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps, Skaftfells menningarmiðstöðvar á Seyðisfirði, Menningarstofu Fjarðabyggðar, menningarmálanefndar Djúpavogs og Austurfréttar/Austurgluggans.