Rithöfundalestin endurspeglar glæsilegt austfirskt bókaár

Austfirskir rithöfundar mynda meirihlutann í árlegri rithöfundalest sem leggur af stað um fjórðunginn í kvöld. Ferðalagið snýst ekki síður um að mynda samband milli rithöfunda heldur en upplesturinn sjálfan.

„Það birtist í lestinni hversu sterkir austfirskir höfundar eru farnir að koma inn í útgáfuna. Lestin endurspeglar glæsilegt bókaár fyrir Austurland og það eru miklu fleiri sem tengjast Austurlandi að gefa út bækur,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar.

Stofnunin stendur að rithöfundalestinni ásamt menningarmálanefnd Vopnafjarðar og Ungmennafélaginu Agli rauða. Hópurinn byrjar í Herðubreið í kvöld þar sem hópur í Skapandi skrifum kemur einnig fram. Annað kvöld verður lesið upp í Safnahúsinu í Neskaupstað, á Skriðuklaustri á laugardag og Vopnafirði á laugardagskvöld.

Í lestinni í ár eru Steinunn Ásmundsdóttir, Stefán Bogi Sveinsson, Kristborg Bóel, Hafsteinn Hafsteinsson sem öll búa á Austurlandi, Benný Sif Ísleifsdóttir frá Eskifirði og Einar Kárason og Gerður Kristný.

Skúli Björn segir eitt af markmiðum rithöfundalestarinnar að mynda tengsl milli austfirskra höfunda sem hafi ritstörfin flestir að aukastarfi og atvinnuhöfunda. „Þetta snýst ekki bara um upplesturinn sjálfan.

Ég held það skipti þó töluverðu máli að búa til þennan vettvang fyrir fólk til að kynna bækur sínar og lesa úr þeim. Við höfum greitt þeim fyrir upplesturinn og það er liður í að styðja við fólkið í að verða meiri atvinnuhöfunda.“

Lestið verður upp úr fleiri bókum á Skriðklaustri því á sunnudag er árlegur upplestur á Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Lesturinn hefst klukkan 13:30 og verður það Halldóra Malin Pétursdóttir, leikkona, sem les.

Bókin er að auki lesin í Gunnarshúsi í Reykjavík auk þess sem lesið er í Berlínu á vegum íslenska sendiráðsins og Moskvu á vegum vináttufélags Íslands og Rússlands.

Aðventa kom upphaflega út árið 1956 og hefur síðan verið þýdd á tæplega 20 þúsund tungumál. Nýjasta þýðingin kom út í Aserbaídsjan í sumar og varð þar með fyrsta íslenska skáldsagan til að vera þýdd á asersku. „Aðventa er á góðri siglingu og það eru enn að koma nýjar þýðingar,“ segir Skúli Björn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar