Rithöfundalestin færist yfir á Austurfrétt

Í aldarfjórðung hefur verið fastur liður á aðventu að rithöfundar ferðist um Austurland og lesi úr nýútgefnum bókum sínum. Af ferðinni verður ekki í ár vegna samkomutakmarkana en lesturinn færist þess í stað yfir á Austurfrétt.

Rithöfundalestin, sem svo er nefnd, hefur verið samsett af landsþekktum höfundum í bland við austfirska. Alla jafna hefur verið lesið upp í Gunnarshúsi að Skriðuklaustri í Fljótsdal, Skaftfelli á Seyðisfirði, félagsheimilinu Miklagarði á Vopnafirði og Safnahúsinu í Neskaupstað.

Af hringferðinni verður ekki í ár vegna Covid-19 faraldursins en í stað þess munu birtast myndskeið hér á Austurfrétt, sem og samfélagsmiðlum þar sem höfundar kynna og lesa upp úr verkum sínum. Fyrsta myndbandið birtist í dag en þau munu síðan birtast reglulega fram undir jól.

„Í ljósi ástandsins þá tókum við sem stöndum að Rithöfundalestinni ákvörðun um að leggja áherslu á kynningu á höfundum og bókum tengdum Austurlandi og fara í samstarf við austfirskan fjölmiðil um það.

Jafnframt nýtum við styrk Uppbyggingarsjóðs Austurlands til að kosta heimsóknir eins barnabókahöfundar í grunnskóla fjórðungsins,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar sem hefur leitt Rithöfundalestina síðustu ár.

Aðrir samstarfsaðilar eru: Menningarmálanefnd Vopnafjarðarhrepps, Skaftfell menningarmiðstöð, Menningarstofa Fjarðabyggðar og menningarmálanefnd Djúpavogs.

„Við hjá Austurfrétt og Austurglugganum höfum alla tíð lagt okkur fram um að gera austfirskri menningu vegleg skil. Við vorum því mjög ánægð þegar leitað var til okkar við að tryggja að Rithöfundalestin kæmist sína leið í ár þótt hún sé önnur en vanalega og væntum þess að lesendur okkar taki ferð hennar vel,“ segir Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar/Austurgluggans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.