Rithöfundalestin 2020: Yfir bænum heima eftir Kristínu Steinsdóttur

Yfir bænum heima er nýjasta skáldsaga Kristínar Steinsdóttur. Í bókinni segir frá lífi fjölskyldu á Seyðisfirði á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, í kreppunni miklu og síðari heimsstyrjöldinni.

„Ég er fædd á Seyðisfirði árið 1946, árið eftir að stríðinu lauk og alin þar upp,“ segir Kristín um bókina.

„Móðir mín var einstök sögukona og í gegnum hana fékk ég mikla upplifun. Sagan byggir á þessari upplifun, en þó ekki bara sögunum hennar mömmu heldur sögum sem fleira fólk sagði.

Við vorum öll heltekinn af sögunni um stríðið, það var svo stutt síðan því lauk. Við lékum okkur í loftvarnabyrgjunum og þurftum ekki annað en að líta á fjörurnar sem voru kolsvartar af olíu sem komið hafði upp úr El Grillo.“

Kristín hefur sent frá sér yfir 30 bækur, birt sögur í safnritum og samið leikrit fyrir útvarp og leikhús. Bækur hennar hafa hlotið fjölda verðlauna og komið út víðar en á Íslandi.

Úr bókarýni Austurgluggans: „Það var ánægjulegt að heimsækja Seyðisfjörð stríðsáranna og kynnast sögu fólksins sem þar bjó og ég þekki marga lesendur sem munu taka því fegins hendi að geta lesið vandað og vel skrifað skáldverk sem er ekki knúið áfram af hörmungum og illum örlögum.“

Rithöfundalestin hefur verið árviss viðburður á Austurlandi þar sem landsþekktir rithöfundar, í bland við austfirska höfunda, hafa lesið upp úr nýútkomnum verkum. Vegna samkomutakmarkana færist rithöfundalestin í ár yfir á netið og er unnin í samstarfi Austurfréttar/Austurgluggans við Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri, menningarmálanefnd Vopnafjarðarhrepps, Skaftfell menningarmiðstöð, Menningarstofu Fjarðabyggðar og menningarmálanefnd Djúpavogs.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.