Rithöfundur ferðast hringinn til að lesa upp úr nýrri bók
Algengt er að tónlistarmenn leggi upp í tónleikaferðir hringinn í kringum landið. Þann sið hefur Eiríkur Örn Norðdahl tekið upp til að kynna nýjustu bók sína, Náttúrulögmálin. Hann fer stað úr stað á Austurlandi frá og með morgundeginum.„Ég bý á Ísafirði þannig ég þarf alltaf að fara hvort sem er. Ég hef alltaf farið til Reykjavíkur í 1-2 vikur og lesið upp þar en langaði að fara víðar. Mér fannst eiginlega rangt að gera það ekki en það er meira fyrirtæki og komið fram á þennan árstíma.
Ég hef haf endalausar áhyggjur af veðrinu í allt haust, að ég myndi sitja fastur í ófærð á sama staðnum. En mig langaði að gera þetta minnst einu sinni um ævina og er með bók sem mér fannst eiga erindi,“ segir Eiríkur Örn.
Eiríkur mun fram til sunnudags lesa á Egilsstöðum, Borgarfirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Breiðdalsvík, Neskaupstað og Djúpavogi. Hann les á ýmsum stöðum: kaffihúsum, hjúkrunarheimilum og bæjarskrifstofum. „Ég kem við alls staðar þar sem tekið er á móti mér,“ segir hann.
Myndir og tónlist
Ekki er nóg með að Eiríkur lesi upp úr bókinni heldur sýnir hann líka myndir. „Það er hægt að kalla þetta fyrirlestur. Ég segi frá bókinni og þar sem skjávarpi er til staðar sýni ég myndir og jafnvel myndbönd frá sögusviðinu sem er Ísafjörður árið 1925.
Ég starði á þessar myndir og notaði þær sem innblástur í þau þrjú ár sem ég var að skrifa bókina. Hún er í senn 100% söguleg skáldsaga og 100% skáldskapur og bull. Ég hef þær með því þær hafa eitthvað að segja um það sem liggur að baki verkinu,“ útskýrir Eiríkur.
Á Djúpavogi á sunnudag og Höfn í Hornafirði næsta mánudag kemur tónlistarmaðurinn Gímaldin einnig fram. „Hann er gamall vinur og við höfum unnið saman áður. Hann bjó lengi á Höfn þannig við ákváðum að slá saman í þessa tvo staði.“
Margverðlaunaður rithöfundur
Bókin Náttúrulögmálin fjallar um biskupinn sér Jón Hallvarðsson sem sumarið 1925 boðar til prestastefnu á Ísafirði. Hann storkar þar með þeirri þjóðtrú um að ef sjö prestar og einn eineygður standi fyrir dyrum kirkjunnar þar falli skriða á bæinn sem endi þar alla mannabyggð. Þar með hrindir séra Jón sjö daga atburðarás af stað.
Eiríkur hefur undanfarin ár verið meðal fremstu rithöfunda Íslands. Hann hlaut á sínum tíma Íslensku bókmenntaverðlaunin og hlaut tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Illsku. Í fyrra var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir barnabókina Frankensleiki.
Upplestrar Eiríks á Austurlandi:
Egilsstaðir, Tehúsið, 1. nóvember kl. 20
Borgarfjörður eystri, KHB ölstofa, 2. nóvember, kl. 20
Reyðarfjörður, Bæjarskrifstofan, 3. nóvember, kl. 12
Eskifjörður, Hulduhlíð, 3. nóvember, kl. 15
Breiðdalsvík, Beljandi Brugghús, 3. nóvember, kl. 20
Neskaupsstaður, Breiðablik, 4. nóvember, kl. 15
Nesskaupstaður, Þórsmörk, 4. nóvember, kl. 20
Djúpivogur, Framtíðin, 5. nóvember, kl. 20 (ásamt Gímaldin)
Mynd: Ágúst Atlason