Þróttarstúlkur unnu með harðfylgi
Í gærkvöld var fyrsti leikurinn í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í blaki. Þróttur N vann Þrótt Reykjavík 3 - 2 í æsispennandi leik.
Hrinurnar fóru 27 - 25, 25 - 12, 22 - 25, 19 - 25 og 15 - 7.
Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, formaður Blakdeildar Þróttar N segir að i upphafi leiks hafi það verið Þróttur R sem sem byrjaði mun betur og komst liðið í 1 - 7. ,,Þá tóku stúlkurnar okkar við sér og náðu að jafna. Fyrsta hrinan var svo mjög jöfn alla tímann og skiptust liðin á að vera með forystuna.
Í annarri hrinu var Þróttur N með forystuna allan tímann og það var aldrei spurning hvernig hún myndi fara. Lengi vel héldu áhorfendur að Þróttur N myndu klára leikinn í þriðju hrinunni en Reykjavíkurstúlkur gáfust ekki upp og unnu þriðju hrinuna og fjórðu.
Í oddahrinunni mætti Þróttur N mjög ákveðnar til leiks og það var aldrei spurning hvernig hún myndi fara,“ segir Þorbjörg.
Leikurinn í gærkvöld var vel spilaður af báðum liðum og gaman að sjá til beggja liða sýna góða baráttu. Næsti leikur liðanna er í Reykjavík á föstudaginn kl. 19:30 í íþróttahúsi Kennaraháskólans.
Þorbjörg hvetur alla Austfirðinga í Reykjavík til að mæta í íþróttahúsið og hvetja stúlkurnar til sigurs því þær þurfi svo sannarlega á stuðningi að halda. Í gærkvöld mættu 108 áhorfendur í húsið og það verður gaman að sjá hvort það leynist ekki álíka fjöldi Austfirðinga í Reykjavík sem getur hvatt stúlkurnar til sigurs.