RÚV hættir útsendingum af Austurlandi
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. jan 2010 12:49 • Uppfært 08. jan 2016 19:21
Útsendingar svæðisstöðva Ríkisútvarpsins verða lagðar niður á næstunni. Þremur starfsmönnum RÚVAust hefur verið sagt upp og húsnæðið á Egilsstöðum er til sölu.
Aðgerðirnar eru hluti af miklum niðurskurði hjá stofnuninni sem kynntur verður betur á starfsmannafundi í dag. Ásgrími Ingi Arngrímssyni, fréttamanni, Heiði Ósk Helgadóttur, tæknimanni og Hafdísi Erlu Bogadóttur, markaðsfulltrúa var öllum sagt upp í morgun. Ekki er farið fram á að þau vinni uppsagnarfrestinn. Til stendur að selja húsnæði RÚV á Egilsstöðum.Fréttakonan Sigríður Halldórsdóttir, sem er á leið í barneignarleyfi og tökumaðurinn Hjalti Stefánsson verða áfram til taks. Ingólfur Bjarni Sigfússon, varafréttastjóri, sagði í samtali við agl.is að breytingarnar þýddu verulega breyttan fréttaflutning af landsbyggðinni.
Útsendingar svæðisstöðva, sem verið hafa klukkan 17:20, leggjast væntanlega af fljótlega. Óljóst er með frekari efnisvinnslu og innslög af svæðisstöðvunum.