Sæl og glöð með Ormsteiti
Skipuleggjendur Ormsteitis eru ánægðir með hvernig hátíðin tókst í ár. Hún undirgekkst nokkrar breytingar og var miðpunktur hennar færður í húsið sem gjarnan hefur kennt við Blómabæ. Þar var markaður flesta dagana.„Við erum sæl og glöð með það sem við gerðum, annað væri ósanngjarnt. Okkur fannst þetta ganga nokkuð vel og það var ágætis mæting á alla viðburði,“ segir Jóhann Gísli Jóhannsson, einn forsvarsmanna Menningarsamtaka Héraðsbúa sem sáu um hátíðina í ár.
Hann nefnir sem dæmi að yfir 100 manns hafi mætt í Eiða á sunnudag þar sem var dagskrá með verkum Sigurðar Ó. Pálssonar og Jónbjargar S. Eyjólfsdóttur. Sama dag voru um 130 manns í kaffihlaðborði í félagsheimilinu Tungubúð.
Um 250 manns mætti á skemmtikvöld síðasta fimmtudagskvöld og uppselt var á súpukvöld á laugardag. Báðir þeir viðburðir fóru fram í fyrrum húsnæði Blómabæjar en þar var einnig markaður yfir helgina.
„Við teljum að þarna sé komið framtíðarhúsnæði fyrir slíka notkun. Það var hlýtt og gott að vera inni í húsinu. Þennan markað hefði ekki verið hægt að bjóða á yfir fjóra daga í tjaldi,“ segir Jóhann Gísli.
Seinni part föstudags var fyrirtækjadagur sem að mörgu leyti lukkaðist mjög vel. „Forsvarsfólk fyrirtækjanna var nokkuð ánægt með daginn og við erum þakklát þeim fyrir að vera með, sem og öðrum sem komu á hátíðina eða studdu okkur með einum eða öðrum hætti.“
Hátíðin hefur undanfarin ár verið haldin á vegum sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs en í vor var ákveðið að útvista henni og var þá samið við Menningarsamtökin. Jóhann Gísli segir að tíminn í ár hafi verið nokkuð knappur til að hægt væri að skipuleggja stærri viðburði. Áherslan hafi þess í stað verið á heimafólk.
„Okkur finnst eðlilegt að nýta fjármagnið til að stuðla að því sem heima er og við eigum mjög frambærilegt listafólk. Það sýndi sig á laugardagskvöld þegar þrjár ungar stúlkur (Karen Björnsdóttir, Soffía Thamdrup og Ragnhildur Elín Skúladóttir) sungu og vöktu mikla athygli. Það er stórkostlegt að eiga ungt fólk sem er komið þetta langt.“
Samningur samtakanna við sveitarfélagsið var til eins árs. Jóhann Gísli segir að nú verði árangurinn metinn og það sé í verkahring Fljótsdalshéraðs að ákveða næstu skref. Æskilegt sé þó að samningar séu frágengnir ekki síðar en um áramót ef bóka eigi stærri skemmtikrafta.
Frá markaðinum á Ormsteiti.