Saga Unn opnar tvær sýningar um helgina

Listakonan Saga Unn opnar um helgina tvær sýningar, annars vegar myndlistarsýningu í Tehúsinu á Egilsstöðum, hins vegar innsetningu í Jensenshúsi á Eskifirði.

Sýninguna í Tehúsinu kallar hún „Mynstur.“ „Ég geri mikið af mynstri þegar ég teikna. Ég er hér meðal annars með kisumyndir og kisurnar mynda mynstur í sumum myndunum. Ég er líka að horfa eftir mynstrum í mínum listamannsferli. Þetta eru verk frá árinu 2016 þar til núna,“ segir hún.

Sú sýning opnaði í morgun. Á sunnudag opnar hún innsetningarverk í Jensenshúsi á Eskifirði, þar sem hún hefur búið síðustu tvö ár. Innsetningin kallast „Þýðing“ og byggir á efnivið sem hún vann fyrir sýningu í Sapporo Japan þar sem hún var í sex vikur í listamannadvöl í haust.

„Ég lærði japönsku í Háskóla Íslands. Ég tók bækurnar mínar og breytti þeim í gogga. Þetta er hugleiðing um hvað er menntun og hvað við gerum við hana. Ég eyðilagði bækurnar mínar.

Hún er líka um texta, tungumál og tjáningu. Listin er ákveðið form tjáningar. Þarna sjáum við hvað efnið tekur mikið pláss og hve mikið okkur er ætlað að læra í skólanum,“ segir hún.

Sýningin á Eskifirði opnar á hádegi á sunnudag og er opin til klukkan 18 þann dag en annars frá 15-18 fram til næsta föstudags. Saga verður á staðnum til að ræða við fólk um listina og lífið, sýna myndir og bjóða upp á kaffi.

Hún sýndi goggana áður á bókasafni í Sapporo en sýningin hafði þar annan titil. Saga segir verkið taka breytingum eftir því umhverfi sem það er sýnt í. „Umgjörðin í Jensenshúsi er allt önnur en ytra. Það er lítið hús og það kemur skemmtilega út að fylla efri hæðina af goggum.“

Saga lauk BA-gráðu í listnámi frá Singapúr áður en hún lagði fyrir sig japönskuna. Að loknu því námi færði hún sig aftur yfir í listsköpunina. „Sýningin fjallar líka um mitt ferli, frá listinni yfir í japönskuna og til baka.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar