Samfélagið verður að leyfa íslensku með hreim
Malgorzata Libera (Gosia) en hún er fædd og uppalin í Póllandi en flutti til landsins, nánar tiltekið til Eskifjarðar, árið 1999 þegar hún var tuttugu og eins árs gömul. Þar býr hún í dag með eiginmanni sínum og tveimur börnum.Gosia var meðal þeirra sem töluðu á málþingi sem Austurbrú stóð fyrir í Neskaupstað í lok júní um málefni fólks af erlendum uppruna. Tilgangur málþingsins var að auka vitund Austfirðinga um stöðu þessa hóps sem er um ellefu prósent íbúa á Austurlandi og mun að öllum líkindum stækka á næstu árum. Svona sagði Gosia frá upplifun sinni af íslensku samfélagi:
Þegar ég var beðin um að koma og halda erindi á þessu málþingi í dag, um upplifun mína á að flytja og búa á Íslandi, fór ég að hugsa um hvað ég ætti að tala. Það eru tvö atriði sem mér finnst langmikilvægust: Það er tungumálið og virk þátttaka í samfélaginu.
Þessi tvö atriði haldast í hendur. Ef þú nærð ekki tökum á tungumálinu nærðu ekki að vera nægilega virkur í samfélaginu. Þetta er lykilatriði í mínum huga eftir að hafa búið hér nánast mína hálfa ævi.
Ætlaði bara að stoppa eitt ár
Öll mín fjölskylda býr í Póllandi, nema faðir minn sem býr í Bandaríkjum. Hann flutti þangað vegna atvinnuleysis í Póllandi til að leita að nýjum tækifærum og hefur ílengst þar. Ég flutti til Íslands af ástæðu. Atvinnuleysi var þá mikið í Póllandi, um 20%. Mér gekk illa að fá vinnu þótt ég hefði menntað mig sem klæðskeri.
Á þessum tíma var ekki auðvelt að komast til landsins né að fá atvinnuleyfi. Það tók eitt ár að fá öll leyfi til að komast inn í landið. Við vorum 13 manns saman sem komum til að vinna í fiski hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar, sem er Eskja í dag.
Ætlunin var að koma hingað til Íslands og vinna að hámarki í eitt ár, safna pening og fara í listaháskóla í Póllandi.
Fyrsta hálfa árið var ég bara í pólska samfélaginu í Fjarðabyggð, umgekkst bara Pólverja og talaði pólsku. Þar sem ætlunin var að stoppa stutt við á Íslandi sóttist ég ekki eftir því að kynnast fólkinu né læra íslensku.
Engin orðabók
Þetta breyttist eftir að ég kynntist núverandi eiginmanni mínum og þá opnuðust nýjar dyr. Ég sá þá að eini lykillinn til að komast inn í samfélagið var að læra tungumálið, ekki var hægt að bjarga sér á ensku þar sem við Pólverjar lærðum ekki það tungumál í skóla á þessum tíma.
Ég var heppin að komast inn í samfélagið í gegnum fjölskyldu og vini mannsins mín, sama var ekki hægt að segja um alla félaga mína sem komu með mér til landsins.
Ég hafði góðan stuðning frá fjölskyldu mannsins míns frá upphafi en menningarsjokkið var mikið. Ég meina það ekki illa en það eru mjög ólíkar hefðir og venjur í þessum tveimur löndum. Trúarbrögð, skoðanir og lífssýn fólks eru líka ólík svo ég tali ekki um náttúruna og loftslagið.
Á þessum tíma var engin fræðsla í boði. Engar upplýsingar, ekkert þýtt efni, engin tungumálakennsla, ekki einu sinni til orðabók til að þýða frá pólsku yfir á íslensku og öfugt. Sú fyrsta kom ekki út fyrr en 2002.
Til að finna sig í nýju samfélagi tel ég nauðsynlegt að ganga í gegnum þetta ferli en jafn mikilvægt að passa upp á sinn eigin uppruna og menningu.
Í íslenskutíma
Ég ákvað síðan fljótlega að fara í skóla og læra íslensku. Það var næsta sjokk þar sem ég settist inn í skólastofu í framhaldsskóla með íslenskum unglingum. Ég fékk íslenskar bækur og skildi ekki orð. Ég vissi allt um hvernig kennarinn leit út, hvernig hann var klæddur – ég get sagt ykkur að hann er með blá augu – annað man ég ekki úr þessum tímum.
En án gríns þá var þetta glórulaust að setjast inn í almennan framhaldsskólaáfanga í íslensku og hafa engan grunn. Þetta var eins og að fá kalda vatnsgusu framan í sig.
Sem betur fer er raunin önnur í dag. Boðið er upp á námskeið og námsáfanga í íslensku fyrir útlendinga. Miklar breytingar hafa orðið á Íslandi og í skólasamfélaginu með mikilli aukningu innflytjenda til landsins. En eftir þessa reynslu skil ég vel börn sem koma í nýtt samfélag án tungumálakunnáttu, að það geti haft gríðarlega andleg áhrif og skapað mikla erfiðleika. Þarna var ég þó fullorðin einstaklingur en þetta tók samt mikið á. Þessi reynsla fékk mikið á mig og braut niður sjálfsmynd mína.
Mig langar að segja til þeirra sem sinna og móta íslenskukennslu innflytjenda, að það ætti að gera menningaráfall að umræðuefni á námskeiðum. Ég tel mikilvægt að innflytjendum verði kynnt menningaráfallsferlið svo þeir geri sér betur grein fyrir að tilfinningar þeirra eru eðlilegar í þessari aðlögun og með áframhaldandi krafti í að venjast samfélaginu muni það leiða til betri líðan.
Í dag hef ég meira sjálfstraust og í gegnum vinnuna mína hjá Afli starfsgreinafélagi fæ ég mitt tækifæri til að aðstoða fólk sem er í þeim sporum sem ég var.
Að lokum:
Það skiptir gríðarlega miklu máli að innflytjendur viðhaldi menningu sinni. Það er jafn mikilvægt og að tileinka sér nýja menningu í nýju landi. Í ljósi umræðu minnar um mikilvægi þess að læra íslenskuna til að aðlagast landi og þjóð, þá felur það meðal annars í sér að fólk í samfélaginu viðurkenni og leyfi að töluð sé íslenska með hreim. Þá efast ég ekki um að fleiri munu þora að taka skrefið.
Útgáfa síðasta tölublað Austurgluggans var samstarfsverkefni Austurbrúar og Útgáfufélags Austurlands. Blaðið var tileinkað fólki er erlendum uppruna á Austurlandi. Það var gefið út á ensku til að ná til sem flestra lesenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Íslenskar útgáfur greinanna birtast á Austurfrétt.