„Sérstakt að mæta á sama viðburðinn kvöld eftir kvöld og sjá hann þróast“

Jónas Sigurðsson heldur í kvöld fyrstu tónleikana af fimm á jafnmörgum dögum í Fjarðarborg á Borgarfirði. Tíu ár eru síðan Jónas hélt þar 18 tónleika á 20 dögum. Ráin er ekki sett jafn hátt nú, enda segir Jónas tónleikaröðina fyrir áratug hafa verið einstakan viðburð sem ekki verði leikinn eftir.

„Ég treysti mér ekki til að endurtaka þann leik. Ég var heillengi að jafna mig eftir það. Ég endaði fárveikur, hálfútbrunninn en það var samt dásamlegt. Núna eru breyttir tímar og ég er orðinn eldri.

Þetta er eins og þegar við sigldum hringinn um landið sem áhöfnin á Húna sumarið eftir. Ég sigldi með alla leið, ætlaði ekki að missa úr sekúndu um borð. Það var algjörlega brilliant hugmynd sem mig dauðlangar að endurtaka en er eitthvað sem á bara að gerast einu sinni,“ segir Jónas.

Kvöldgestir framtíðarinnar

Hugmyndin fyrir tíu árum var sú að Jónas kæmi fram í Fjarðarborg meðan hann dveldi á Borgarfirði í sumarfríinu og fengi við og við til sín gesti. Þetta sprakk út, sífellt bættust nýir gestir í flóruna. Jónas verður ekki einn á sviðinu nú frekar en fyrr, hópur listafólks skiptist á að koma fram með honum undir nafninu „Kvöldgestir framtíðarinnar.“

Sumir þeirra eru hinir sömu og síðast, til dæmis ljóðskáldin Stefán Bogi og Ingunn Snædal, söngkonan Valný Lára frá Egilsstöðum og Prins Póló sem þá bjó í Berufirði.

„Við blöndum saman listafólki að sunnan og hæfileikafólki af svæðinu sem gaman er að virkja í svona. Þetta er fólk sem ég hef unnið með og eru vinir mínir, sem og nöfn sem slógu í gegn síðast. Við Prinsinn áttum geggjað augnablik á sviðinu fyrir tíu árum og það verður gaman að tengjast því aftur,“ segir Jónas.

Trommuleikarinn Arnar Gíslason og söngkonan Lára Rúnarsdóttir munu að þessu sinni fylgja honum í gegnum alla tónleikana. „Viðtökurnar lofa góðu, einhverjir tugir hafa keypt passa á öll kvöldin. Það verður meiri stöðugleiki í þessu en síðast, fleiri sem koma fram oftar. Það er sérstakt að mæta á nánast sömu tónleikana kvöld eftir kvöld og sjá þá þróast.“

Austurland sem engill í hvítum kjól

Jónas hefur reglulega komið og spilað á Borgarfirði, hvort sem það hefur verið á Bræðslunni eða í Fjarðarborg. Árið 2019 flutti hann plöturnar sínar fjórar þar á jafnmörgum tónleikum.

„Ég er alinn upp í Þorlákshöfn en fór í skóla á Eiðum þegar ég var 15 ára og var þar tvo vetur. Eiðar og Austurland voru fyrir mér eins og engill í hvítum klæðum. Þorlákshöfn var örlítið röff, klassískt sjávarþorp en ég fór í heimavistarskóla uppi í sveit með 100 krökkum. Þar var hljóðfæraaðstaða og við vorum allan daginn í tónlist.

Uppistaðan í hópnum á Eiðum voru krakkar úr sveitunum sem og Borgarfirði. Ég eignaðist þar marga vini frá Borgarfirði og kynntist síðan enn fleiri Borgfirðingum í gegnum þá. Þessir vinir mínir standa meðal annars að baki Bræðslunni og Já Sæll í Fjarðarborg. Hér í samfélaginu hef ég fengið ótrúlegan stuðning.

Ég tengdist Austurlandi vel, líkaði vel bæði á Eiðum og Egilsstöðum. Að fara austur var alltaf eins og fara til útlanda, fljúga og lenda í skógi vöxnu landi. Þessi tenging hefur haldist. Ég bjó erlendis í nokkur ár og þegar ég kom til Íslands þurfti ég alltaf að fara austur,“ segir Jónas um tenginguna.

Fyrstu tónleikarnir verða í kvöld en halda síðan áfram fram til laugardags. Þeir hefjast allir stundvíslega klukkan 21:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.