Sérstakt að sjá hve hratt landslagið í Surtsey breytist

Sextíu ár eru í dag síðan mesta neðansjávargos á sögulegum tíma hófst. Afurð þess varð Surtsey. Strangar reglur eru um ferðir og dvöl í eynni en vísindamenn fá að koma þangað til að fylgjast með þróun náttúrunnar. María Helga Guðmundsdóttir, jarðfræðingur við Borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar og verkefnisstjóri á Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík, var á meðal þeirra sem fóru í leiðangurinn í Surtsey í sumar.

„Þetta var ótrúlegt ævintýri og mjög góð reynsla. Það er svo margt sérstakt og merkilegt við þennan stað. Það er ekki víða sem hægt er að horfa á náttúruna breytast á þessum hraða. Þetta byrjar með hvelli og síðan þróast hlutirnir hratt áfram. Náttúruöflin eru á svo mikilli ferð.

Við sjáum þarna ferla þar sem maður hefur ekki góða tilfinningu fyrir tímanum á. Til dæmis þegar sjórinn brýtur stór stykki úr hrauninu sem velkjast um og verða að stórum hnöttóttum hnullungum í fjörunni á einu ári. Þróunin heldur svo áfram og í ár er hluti af hnullungafjörunni skyndilega orðinn að sandfjöru.

Það var mjög merkilegt að tveimur árum eftir goslokin var móberg komið upp á yfirborð eyjunnar. Áður var það ferli talið taka þúsundir ára,“ segir María Helga.

Strangar reglur um umgengni


Strangar reglur gilda um ferðir til Surtseyjar. Umhverfisstofnun gefur út skrifleg leyfi, sem yfirleitt eru aðeins veitt vísindafólki eða fjölmiðlum sem miðla vísindaefni. Í sumar var maður, sem fór út í eyjuna án leyfis, kærður fyrir það.

„Það eru mjög strangar reglur um hvernig má haga sér,“ segir María Helga. Þar er ekkert rennandi vatn, vísindafólkið þarf að hafa það allt með sér. Þar af leiðandi eru engin vatnssalerni. María Helga útskýrir að í staðinn sé afmörkuð fjara fyrir vísindafólkið undir klettum, sem gengur undir heitinu Gústafsberg. „Ef maður er heppinn þá sigla skemmtiferðaskip frá National Geographic hjá á sama tíma, fullt af fólki með kraftmiklar aðdráttarlinsur!“

Vísindafólkið fór til Surtseyjar með þyrlu Landhelgisgæslunnar. „Við þurftum að leggjast á farangurinn okkar til að hann fyki ekki þegar þyrlan flaug í burtu. Hún þeytti hrúgu af sandi og ösku yfir allt. Afleiðingar þess var maður með í hárinu í fjóra daga.“

Á eyjunni er sérstakur skáli byggður fyrir þá sem fá að dvelja á eyjunni. Hópurinn fékk síðan far með Björgunarfélagi Vestmannaeyja til baka. „Félagar úr því komu að á gúmmíbáti og fluttu okkur út í björgunarskip sitt. Ég fór fyrst út í bátinn í mínu holli. Það var öldugangur og ég og tveir aðrir fengum að smakka vel á einni öldunni á meðan restin af hópnum bjó sig undir að setjast um borð.“

María Helga, til vinstri, og Kristján Jónasson, við rannsóknir í Surtsey. Mynd: Birgir V. Óskarsson

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.