Sextán ára hagyrðingur

Þorvaldur Jón Andrésson, 16 ára hagyrðingur frá Borgarfirði eystra, sendi á aðventunni út sína fyrstu vísnabók, Rauðu rósina. Þorvaldur segist hafa heillast af vísnalistinni þegar hann fylgdi föður sínum á hagyrðingamót sem drengur.

„Pabbi minn (Andrés Björnsson) er hagyrðingur og ég fór oft með honum á hagyrðingamót á Borgarfirði. Mér fannst skemmtilegt hvernig hagyrðingarnir gátu grínast og skotið hver á annan með vísum. Síðan fór ég inn á YouTube-ið og horfði á gömul hagyrðingamót. Þá fór ég að pæla í hvar stuðlarnir væru. Mér fannst gaman að setja saman vísu og allt í einu kom þetta,“ segir Þorvaldur Jón um vísnasmíðina.

Hann segir að sú list sé ekki mikið stunduð meðal jafnaldra sinna. „Ég þekki ekki marga, eiginlega ekki neinn,“ segir hann fyrst og bætir svo við að hann sé kallaður gamaldags eða gömul sál. „Það truflar mig ekki neitt.“

Tilbúinn með tækifærisvísurnar


Þorvaldur Jón, sem stundar húsasmíðanám í Verkmenntaskóla Austurlands, segist yrkja um alls konar efni og sé duglegur að skrifa hjá sér hugdettur sem nýst geti honum síðar. Hann hefur ort tækifærisvísur og tróð til að mynda upp í fimmtugsafmæli frænda síns á Borgarfirði í haust. „Já, það hafa margir beðið mig um þær. Þá sem ég þær 1, 2 og bingó. Síðan fæ ég hugmyndina sjálfur og treð mér inn.“

Rauða rósin varð til út frá ánægju hans af vísnasmíðinni. „Mér finnst svo gaman að yrkja en ég er líka stoltur af vísunum mínum. Mér finnst þær oft fyndnar og hlæ að þeim. Ég vildi deila þeim með öðrum og keypti mér því prentara og prentaði út 50 eintök af bókinni.“

Stefnir á hagyrðingamótin


Þorvaldur segist hafa fengið góða tilsögn frá föður sínum en einnig víðar. „Ég er í stöðugu sambandi við Ragnar Inga Aðalsteinsson í gegnum netið. Ég sendi honum vísur sem hann lagfærir – eða ekki!“

Hann segist mest halda sig í vísunum en einhver ljóð eru til í fórum hans auk þess sem hann hefur ánægju af að snúa út úr dægurlagatextum. Og skáldið 16 ára er bara rétt að byrja. „Það þýðir ekkert annað en að halda áfram að yrkja. Vonandi fæ ég síðan að fara á hagyrðingamót. Til þessa hef ég aðeins verið meðal þeirra sem koma upp í hléi, ég prófaði það í fyrsta sinn í fyrra.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar