Sextán spennandi listamenn sýna á ARS LONGA á Djúpavogi
Forvitnileg sýning var opnuð fyrr í þessum mánuði á samtímalistasafninu ARS LONGA á Djúpavogi en þar er blandað saman verkum listamanna á borð við Sigurðar og Kristjáns Guðmundssona við önnur og ný verk en alls eiga sextán mismunandi listamenn verk þar til sýnis.
Sýningin ber heitið Hvað var - hvað er - hvað verður og segir Þór Vigfússon, einn aðstandenda, þessa sumarsýningu safnsins vera með allra forvitnilegasta móti og spennandi listamenn með verk þar til sýnis.
„Þarna er um að ræða sýningu á verkum sem safnið á eftir þá Sigurð og Kristján og þar hefur bæst við safnakostinn frá því að safnið var opnað formlega. Hér er um margvísleg verk að ræða sem forvitnilegt er að sjá og upplifa og veit ég til þess að verk þar innandyra hafa haft bein áhrif á fólk sem ber þau augum. Þar má líka sjá verk eftir marga aðra listamenn sem að kveður og ég hvet fólk til að reka inn nefið og skoða það sem hér er að sjá.“
Þessi sumarsýning ARS LONGA mun standa út júlí og út fyrstu viku ágústmánaðar en meðal þeirra listamanna sem þar eiga gripi til sýnis má nefna Arnfinn Amazeen, Ástu Fanneyju Sigurðardóttur, Emmu Heiðarsdóttur, Helga Þórsson, Hildigunni Birgisdóttur, Hrafnkell Sigurðsson, Kristínu Ómarsdóttur, Níels Hafstein, Rögnu Róbertsdóttur, Sigurðar Ámundasonar, Sigurðar Guðjónssonar og Unnars Arnar J. Auðarsonar.
Aðspurður segist Þór vera sáttur við aðsókn að safninu en það er rétt liðlega eins árs gamalt og er þar með yngsta safn Austurlands.
„Aðsóknin hefur verið góð svona heilt yfir. Það reyndar gengið upp og niður að fá dagsgesti til að reka inn nefið enda kannski aðkoman ekki upp á það besta þó safnið sjálft sé á allra besta stað. Við höfum verið að leita eftir fjármagni til að lagfæra húsið að utan og allri hönnun er að mestu lokið en nú erum við að leita fjármagns til að lagfæra aðkomuna og útlit hússins.“
Nokkur þau verk sem til sýnis eru fram í ágúst á samtímalistasafninu ARS LONGA á Djúpavogi. Mynd Ars Longa