Seyðfirðingar fagna sumarsólstöðum
Skaftfell bistro og listamiðstöðin Skaftfell standa saman að miðsumarsólstöðuhátíð á Seyðisfirði á morgun með mat, list og íslenskum Jónsmessuhefðum.„Við viljum fagna sumrinu, því að búið er að gera endurbætur á Skaftfelli og nýir rekstraraðilar eru komnir að bistroinu.
Ég veit að það er mikið um hátíðahöld í júní – en er einhvern tíma hægt að fagna of mikið?“ segir Pari Stave, forstöðumaður Skaftfells.
Hátíðin kallast „Miðsumarnótt festival“ og kveikt verður á gleðinni klukkan sex með barnadagskrá og matar- og listahátíð. Gleðin heldur síðan áfram fram að miðnætti meðal annars með georgískum söngvum og slavneskum sólstöðuhefðum.
„Tessa Rivarola er manneskjan að baki dagskránni og hún endurspeglar þá fjölbreyttu menningu sem býr í Seyðfirðingum.“
Hátíðinni lýkur á miðnætti. Listakonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, sem ferðast um landið þessa dagana til að fremja 60 gjörninga í tilefni sextugsafmælis síns, ætlar að leiða fólk sem er tilbúið að velta sér nakið upp úr dögginni eins og hefð er fyrir á Jónsmessunótt. Samkvæmt þjóðtrúnni öðlast döggin sérstakan lækningamátt þessa nótt og getur bæði læknað mein og komið í veg fyrir þau.