Sigraði stuttmyndakeppni Stockfish: Ég vildi búa til bíó

Guðný Rós Þórhallsdóttir frá Egilsstöðum fékk sprettfiskinn, fyrstu verðlaun í stuttmyndasamkeppni kvikmyndahátíðarinnar Stockfish nýverið. Guðný segir það hafa komið sér á óvart að vinna verðlaunin en draumar hennar séu að rætast með að búa til stuttmyndir.


„Ég hágrét, ég kom ekki upp úr mér orði. Ég trúi eiginlega ekki að þetta hafi gerst, býst við að vakna upp á hverri stundu og uppgötva að þetta hafi bara verið draumur,“ segir Guðný aðspurð um hvað henni þyki um að fá verðlaunin.

Mynd hennar, C-vítamín, fjallar um tvær ungar stelpur, Öldu og Karen, safna dóti í tombólur sem þær segja að sé til styrktar langveikum börnum. Guðný segir myndina persónulega þar sem hún sé í grunninn æskuminning en við hana sé bætt svörtum húmor.

Myndina forsýndi Guðný í Sláturhúsinu á Egilsstöðum fyrir jól fyrir vini og fjölskyldu. Hún stefnir á að sækja um á fleiri kvikmyndahátíðum og sjá hvaða viðtökur myndin fái.

Næsta verk hennar er útskriftarmynd úr Kvikmyndaskóla Íslands þaðan sem Guðný útskrifast í vor. „Sú mynd er litrík og falleg og fjallar um mann sem lifir ágætis lífi eftir að uppvakningar taka yfir Ísland.“

En lengra í burtu er draumurinn um að gera kvikmynd í fullri lengd. Hún segir verðlaunin á Stockfish gefa henni aukið sjálfstraust.

„Ég átti engan vegin von á verðlaununum. Maður kryfur eigin verk svo mikið og sér allt sem er að þeim, þó svo að manni þyki mjög vænt um þau. Það voru bara svo flottar myndir að keppa um titilinn og ég var búin að ákveða hvaða mynd væri að fara að vinna. Og það var ekki mín.

Þetta er gríðarleg viðurkenning á vinnu manns. Það er alltaf einhver púki aftan í hausnum á manni sem er að reyna að sannfæra mann um að það sem maður er að gera sé ekki nógu gott. Þess vegna fékk það á mig að fá verðlaunin.

Þetta er það sem ég vil gera, búa til bíó. Og þetta sparkaði í púkann og sagði honum að fokka sér, að ég gæti bara víst gert góða hluti.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar