Síldveiðar við Ísland lögðu grunninn að sænskum niðursuðuiðnaði

Saga sænskra sjómanna sem sóttu Íslandsmið til að veiða síld er sögð í heimildamyndinni „Havets silver“ sem sýnd verður í Herðubreið á Seyðisfirði síðar í dag. Höfundur myndarinnar segir fólk lítið þekkja til sænsku veiðanna því Norðmenn hafi verið svo áberandi en þær hafi skipt sænskan efnahag miklu máli.

„Við sýndum myndina á Siglufirði um helgina. Fólk þar vissi ekki að Svíar hefðu komið þangað til að veiða síld.

Ef við förum yfir heildarveiðina þá veiddu Íslendingar 80% síldarinnar, Norðmenn 18% og Svíar 1%. Veiðarnar skipt okkur samt miklu máli,“ segir Bodin Tingsby, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar.

„Þeir sænsku sjómenn sem sóttu út á Atlantshaf koma flestir af vesturströndinni. Þaðan hvarf síldin snemma á 20. öldinni. Þeir voru mikið innan um norska veiðimenn, lærðu af þeim og heyrðu að mikið væri af síld fyrir norðan og austan Ísland og með bættum skipum treystu þeir sér til að sækja þangað. Fyrsti sænski veiðimaðurinn kom til Íslands árið 1895 og veiddi vel.“

Síðasti séns að skrásetja söguna

Bodil, sem áður starfaði hjá sænska ríkisútvarpinu SVT, er sjálf fædd í Noregi en fluttist sem barn yfir til vesturstrandar Svíþjóðar. Hún er því alinn upp í umhverfinu sem er sögusvið myndarinnar.

„Þegar ég sýndi síðustu mynd mína á vesturströndinni kom fólk til mín og bað mig um að gera eitthvað sem tengdist síldinni, nú væri síðustu forvöð. Við gerð myndarinnar ræddi ég við nokkra gamla sjómenn sem allir eru komnir yfir nírætt.

Einn þeirra sem kemur fram í myndinni bjó skammt frá æskuheimili mín. Hann kom oft í heimsókn og sagði okkur sögur sem ég átti bágt með að trúa. Ég ræddi við þessa menn um hvernig hefði verið að sækja svona langt en ég hitt líka konur sem ég spurði hvernig þeim hefði liðið þegar feður þeirra fóru að heiman í þrjá mánuði og ekkert var öruggt um hvort þeir kæmu aftur.“

Ekki búinn að gleyma henni

Í myndinni koma fram nokkrar sögur sem tengjast Seyðisfirði með beinum hætti. „Þeir segja frá því hvert þeir fóru og hvernig lífið var. Þótt þeir nefni staðina ekki á nafn þá voru sjómennirnir mest á Siglufirði og Seyðisfirði.

Einn þeirra segir frá konu sem hann kynntist á Seyðisfirði. Hann kom hingað með hópi frá sænskum útvegsmönnum til að minnast þessara veiða. Hann leitaði að konunni en fann hana ekki. Hann hafði ekki gleymt henni.

Á árunum eftir fyrra stríð var það þannig að erlendir bátar fengu ekki að koma inn á íslenskar hafnir til að gera að aflanum, Íslendingar vildu hafa þær fyrir sig. Þess vegna urðu sjómennirnir að vera um borð á skipum sínum við störf hvernig sem viðraði. Bróðir eins slasaðist illa og til stóð að fara með hann til Seyðisfjarðar, trúlega á gamla spítalann þar sem ég gisti síðustu nótt. Til þess kom þó ekki. Sænsk gæsluskip fylgdu veiðiflotanum og þar um borð voru meðal annars læknar þannig hann var fluttur þangað.“

Tengsl sem lifa

Þótt Svíar hafi ekki verið áberandi í veiðunum við Ísland þá skiptu þær miklu máli fyrir sænskan efnahag. „Þökk sé íslensku síldinni þá fengum við Abba!“ segir Bodil en bætir við að ekki sé um að ræða hljómsveitina, heldur sögufrægt niðursuðufyrirtæki, Abba Seafood. Þótt það tengist hljómsveitinni ekkert þá er það merkilegt, var um tíma í eigu Volvu en nú norska matvælarisans Orkla. „Þessar veiðar gerðu það að verkum að niðursuðuiðnaðurinn tók og að vaxa og hann varð mikilvægur fyrir sænskan útflutning.“

Bodil hefur verið hér í viku og er búin að sýna myndina í Reykjavík og Siglufirði. „Við sýndum myndina tvisvar á Síldarminjasafninu, salurinn var fullur í bæði skiptin sem og í Reykjavík. Á báðum stöðum vildi fólk koma og ræða tengsl Íslands og Svíþjóðar eftir myndina, það eru mikil tengsl í sjávarútvegi milli Austfjarða og vesturstrandar Svíþjóðar. Ég veit að eigandi Klädesholmen, annars stórs síldarfyrirtækis í Svíþjóð, talar mikið um Seyðisfjörð og svæðið í kring.“

Myndin verður sýnd í Herðubreið klukkan 18:00 í kvöld.

Bodil Tingsby. Mynd: Gabriel Berntsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.