
Síldarvinnslan og Eskja bjóða á sjómannadansleiki
Glæsileg dagskrá verður víðsvegar um Austurland alla sjómannadagshelgina og hefst hún í dag bæði á Eskifirði og Norðfirði.
„Þetta verður eintóm gleði og bongóblíða,“ segir Kristinn Þór Jónasson, formaður sjómannadagsráðs Eskifjarðar.
Kristinn segir dagskrána á Eskifirði að mestu með hefðbundnu sniði. „Þó ber að nefna að siglingin á laugardaginn verður einstaklega glæsileg, en öll þrjú skip Eskju verða með í henni. Einnig verða Egersund og Laxar fiskeldi með í ár, en Egersund verður með opið hús á morgun og Laxar bjóða upp á skoðunarferðir úr í kvíarnar. Annars er helgin að mestu hefðbundin, en fólk vill bara ganga að dagskránni vísri,“ segir Kristinn.
Dagskrá hefst einnig í Neskaupstað í dag með pizzahlaðborði á Hótel Capitano og spilakvöldi í Beituskrúnum í kvöld, en líkt og á Eskifirði lýkur henni ekki fyrr en á sunnudag.
Hefðbundnir sjómannadagsdansleikir verða bæði á Eskifirði og Norðfirði á laugardagskvöldið. Hljómsveitin SOS ásamt Selmu Björnsdóttur leikur fyrir dansi í Valhöll á Eskifirði og hljómsveitin Von ásamt Bryndísi Ásmundsdóttur í Egilsbúð á Norðfirði. Frítt er á báða dansleikina sem eru í boði Síldarvinnslunnar á Norðfirði og Eskju á Eskifirði.
Hér má sjá dagskrána í heild sinni á Eskifirði, Norðfirði og á Fáskrúðsfirði.
Hér má sjá dagskrána á Djúpavogi.
Hér má sjá dagskrána á Seyðisfirði.