Sjónvarp Símans í sveitirnar

Síminn hóf í dag dreifingu á sjónvarpsstöð sinni um UHF dreifikerfi, líkt og RÚV hefur notast við síðustu ár og næst því hvar sem móttaka sjónvarps er möguleg. Þetta hefur einkum áhrif í dreifbýli á Austurlandi.


„Já, þetta er komið til að vera,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, talsmaður Símans.

Til þessa hafa einungis þeir sem hafa haft aðgang að gagnvirku sjónvarpi, sem grundvallast á háhraða nettengingum, haft aðgang að Sjónvarpi Símans. Slíkar nettengingar skortir hins vegar enn víða í austfirskum sveitum.

„Núna náum við líka til þeirra sem taka sjónvarp í gegnum loft,“ segir hún.

Sjónvarp Símans hét áður SkjárEinn en var breytt í frístöð árið 2015. Forsvarsmenn hennar vonast að efla auglýsingamarkaðinn með aukinni dreifingu en stöðin treystir alfarið á þær tekjur. Með auknum tekjum væri hægt að efla dagskrána.

Framboð á efni hefur vaxið en nýverið var gerður samningur við Disney um að heimahöfn fyrritækisins á Íslandi verði hjá Símanum. Páskamynd stöðvarinnar í ár er því hin þekkta Frozen.

Síminn bendir á að mögulega þurfi að endurræsa lofttengda myndlykla svo stöðin sjáist.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar