
Sjósoðið smælki og hundasúrupestó yfir HM á Flateyri
„Ég kynntist fólkinu sem er að reka veitingastaðinn Vagninn á Flateyri og var þar gestakokkur eina helgi í fyrra. Í sumar báðu þau mig um að koma og vera með sér, leggja upp matseðil og elda á kvöldin. Ég ákvað að láta þetta tækifæri ekki fram hjá mér fara, stökk á vagninn og er hér í allt sumar,“ segir Vopnfirski næringarfræðingurinn Elísabet Reynisdóttir sem stendur kokkavaktina á Vagninum í sumar.
Elísabet, sem bjó á Reyðarfirði í fjögur ár, segist taka austfirska matarmenningu með sér vestur. „Einhvern tíma voru þau Berglind og Sævar á Randulffssjóhúsi á Eskifirði í vandræðum og báðu mig um að kokka. Ég hafði bara aðstoðað á litlum veitingastað en aldrei keyrt eldhús. Ég hjálpaði þeim í nokkra daga og græddi vel á því, skipulagið var gott og svo góðir kokkar sem lögðu upp matseðil, þannig að segja má að ég hafi tekið hraðnámskeið í að vinna í eldhúsi og ég bý svo sannarlega að því núna.“
„Við reynum að sækja í holla og góða næringu“
Elísabet segir að matseðillinn á Vagninum sé tengdur náttúrunni og á því verður svo sannarlega engin breyting kringum heimsmeistarmótið í knattspyrnu, en allir leikir Íslands verða sýndir á Vagninum.
„Við reynum að sækja í holla og góða næringu og við ætlum að bjóða upp á smárétti í kringum HM sem er sjósoðið smælki, borið fram kalt með sterku hundasúrupestói. Einnig ætlum við að bjóða upp á litlar fiskibollur með kerfli. Við vonum að þetta alíslenska og orkumikla snakk slái í gegn og sendi strákunum okkar góða strauma til Rússlands,“ segir Elísabet en bætir því við að auðvitað sé hægt að panta eitthvað hefðbundnara samkvæmt matseðli.