Skaftfell fékk Eyrarrósina: Listamennirnir okkar eiga ekki að þurfa að borga með sér

tinna_skaftfell_eyrarros_web.jpg
Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, fékk nýverið viðurkenninguna Eyrarrósina sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Forstöðukona segir að peningar, sem veittir eru til menningarverkefna, skili sér beint aftur til samfélagsins.

„Við erum rosalega hamingjusöm með þessi viðurkenningu og stuðning við starfsemina. Við erum mjög stolt af okkar verkefnum og að fá utankomandi viðurkenningu veitir aðstandendum innblástur til að halda áfram því metnaðarfulla starfi sem hefur byggst upp á undanförnum árum,“ segir Tinna Guðmundsdóttir

Viðurkenningin var veitt í Hofi á Akureyri af Dorrit Moussaieff, forseta frú sem er verndandi verðlaunanna. Auk viðurkenningarinnar sjálfrar fær Skaftfell 1,65 milljón króna í verðlaunafé og flugmiða frá Flugfélagi Íslands.

Ómetanlegur stuðningur

„Fjárhagslegur stuðningur sem þessi er ómetanlegur, sérstaklega í ljósi þess að fjáröflunarleiðir í myndlistargeiranum eru ekki margar. Mjög margir komu að stofnun Skaftfells og frá 1995 hefur Skaftfellshópurinn unnið hörðum höndum við að tryggja rekstrargrundvöllinn með ýmsum leiðum,“ segir Tinna.

„Styrkir til menningargeirans fara beint aftur til samfélagsins. Í okkar tilfelli eru styrkir notaðir við efniskaup, aðkeypta þjónustu við uppsetningu á listaverkunum, prentun kynningarefnis, ferðakostnað, veitingar og svo framvegis.“

Breyta þarf starfsskilyrðum listamannanna

Hún segist þakklát þeim listamönnum sem unnið hafa með Skaftfelli. Þeir hafa oft ekki haft mikið upp úr sinni vinni fjárhagslega.

„Við erum mjög þakklát öllum þeim listamönnum sem hafa viljað taka þátt í verkefnum með okkur, oftast eru þeir að koma út á núlli en mjög oft borga þeir með sér. Þessu þarf að breyta og kemur það í hlut okkar stofnananna að stuðla að því.“

Þetta er í annað skipti sem verðlaunin fara austur á Seyðisfjörð en LungA hátíðin fékk þau árið 2006. Verðlaunaathöfnin fór nú í fyrsta sinn fram utan höfuðborgarsvæðisins en á næstu árum á að halda hana í öllum landshlutum. 

Einleikjahátíðin Act Alone og Eistnaflug voru einnig tilnefnd til verðlaunanna í ár. Hvor hátíð fær 300.000 krónur í verðlaunafé og flugmiða.

Umsögn dómnefndar: 
 
Skaftfell – miðstöð myndlistar á Austurlandi er í sögufrægu húsi í gamla bænum á Seyðisfirði. Í Skaftfelli er öflugt sýningarhald innlendra og erlendra samtímalistamanna, gestavinnustofur fyrir listamenn, kaffistofa og myndlistarbókasafn.
 
Skaftfell er burðarstoð í listgreinamenntun á öllum skólastigum á Austurlandi og stendur fyrir fræðslustarfi á alþjóðlegum grundvelli, þar sem allur bærinn tekur þátt. Kraftmikil og metnaðarfull starfsemi með skýra listræna sýn einkennir Skaftfell og með nánu samstarfi við bæjarbúa hefur orðið til á Seyðisfirði lifandi samfélag listamanna, heimamanna og gesta þar sem aðstæður eru fyrir skapandi samræður milli leikinna og lærðra, listarinnar og hversdagsins.

Tinna brosmild eftir að hafa tekið við verðlaununum úr hendi Dorritar. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar