Skógardagurinn mikli á morgun
Skógardagurinn mikli verður haldinn hátíðlegur á Hallormsstað á morgun. Gleðin hefst reyndar í kvöld þegar boðið verður upp á grillað lambakjöt og keppt í hrútaþukli.
Í fyrramálið hefst dagskráin með skógarhlaupinu sem ræst er á hádegi. Boðið er upp á 14 km hlaup um stígana í skóginum annars vegar og fjögurra kílómetra skemmtiskokk hins vegar.
Klukkan 13:00 hefst dagskráin fyrir alvöru. Boðið er upp á heilgrillað naut, þrautir og leikir, Magni tekur lagið og síðan fer fram hin árlega keppni í skógarhöggi.