![](/images/stories/news/2017/stafdalur_jan17.jpg)
Skíðasvæðin opna: Loksins gerðist eitthvað af viti
Skíðasvæðið í Stafdal opnar í kvöld og svæðið í Oddsskarði á morgun. Snjóleysi hefur hrellt Austfirðinga það sem af er vetri en mjöllin birtist allt í einu í vikunni.
„Það var eitthvað komið en á miðvikudag gerðist loksins eitthvað af viti,“ segir Agnar Sverrisson, rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Stafdal.
„Við höfum alveg séð meiri snjó en hann dugir til að hylja braut.“
Svæðið er opnað óvenju seint en undanfarin ár hefur það yfirleitt verið opnað í desember. Agnar man þó eftir verri árum og bendir áð fyrir nokkrum árum hafi ekki verið hægt að skíða í Stafdal fyrr en 17. febrúar.
Opnað verður klukkan 17 í dag og opið til 20. Frítt er í fjallið fyrsta daginn. Þá verður frítt í fjallið fyrir krakka á sunnudag í tilefni af alþjóða snjódeginum, leikjabraut og heitt kakó í boði. Opið er 11-16 á laugardag og 10-16 á sunnudag.
Aðeins neðri hluti svæðisins er opinn en Agnar segir eftir að laga til í þeim efri. Færið er fínt. „Þetta er troðinn púðursnjór sem marrar í þegar maður gengur. Frosinn en samt mjúkur. Það er dásamlegt færi.“
Skíðasvæðið í Oddsskarði verður opið á morgun frá 11-15. Á hádegi afhendir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, formlega nýjan snjótroðara til svæðisins. Eins verður tekið í gagnið nýtt aðgangsstýringarkerfi.
Eftir skíði má benda á Útsvar en Fjarðabyggð mætir Reykjavík þar í kvöld. Keppnin hefst klukkan 20:15.
Höttur leikur einnig tvo leiki í körfuboltanum um helgina gegn Ármanni. Fyrri leikurinn er 19:30 í kvöld en sá seinni 14:00 á morgun.
Þá verður árleg fimleikasýning Hattar klukkan 13:00 á sunnudag. Strumparnir verða teknir fyrir í ár.
Úr Stafdal í dag. Mynd: Agnar Sverrisson