Skipti mestu að halda fulltrúanum

Miðflokkurinn í Múlaþingi hélt sínum eina fulltrúa í sveitarstjórn í kosningunum á laugardag sem þó voru erfiðar á landsvísu fyrir flokkinn.

„Það eru ekki mikil viðbrögð við þessum úrslitum. Það er leiðinlegt að fá ekki fleiri atkvæði en síðast, við hefðum viljað halda sama fjölda eða bæta við en við höldum manninum inni sem er kannski ákveðinn varnarsigur. Við göngum þess vegna sáttir frá borði.

„Við áttum kannski ekki von á að að gera mikið meira en halda fulltrúanum. Hann var nokkuð öruggur og við hefðum þurft að bæta miklu við okkur til að fá annan mann,“ segir Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins.

Framboðið fékk 207 atkvæði um helgina, samanborið við 240 fyrir tæpum tveimur árum. Múlaþing er þó einn af ljósi punktunum fyrir flokkinn á landsvísu sem missti bæjarfulltrúa sína annars staðar en í Grindavík, Akureyri og Norðurþingi.

Aðspurður um helstu verkefni framundan í sveitarstjórninni nefnir Þröstur val á legu vegar frá gangamunna Fjarðarheiðarganga við þéttbýlið á Egilsstöðum en Miðflokkurinn hefur talað fyrir norðurleið, sem liggur út fyrir bæinn, gegn suðurleiðinni, sem fer inn fyrir ofan hann en Vegagerðin telur hana betri kost.

„Ég verð mjög harður í horn að taka þegar kemur að leiðarvalinu. Ég gefst ekki upp þar og held að við höfum almenningsálitið með okkur í þessu efni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.