Skiptir árinu milli Norðfjarðar og Barein

Guðlaug Ólöf Sigfúsdóttir úr Neskaupstað – eða Lauga Sidda – hefur búið víða við á ævinni. Hún fékk nýverið stöðu sem kapteinn í golfklúbbi í smáríkinu Barein við Persaflóa. Hún heldur þó enn tryggð við æskustöðvarnar.

„Það var ekkert minna en yndislegt að alast þar upp og ég á mikið af góðum minningum frá bernskunni þaðan. Þetta var alltaf mikill íþróttabær auðvitað og ég lét mitt ekki eftir liggja þar. Var sannkölluð íþróttastelpa og tók þátt í öllu sem í boði var þó sundið og fótbolti með Þrótti hafi verið svona það allra veigamesta,“ segir hún.

Lauga tók þá ákvörðun tiltölulega snemma, um sextán ára aldur, að fara að skoða heiminn og þá lá beint við að prófa borgina Atlanta í Bandaríkjunum þar sem Lauga dvaldi um eins árs skeið sem skiptinemi.

„Þetta var sannkölluð upplifun fyrir stelpuskjátu frá Neskaupstað að koma til þessarar stórborgar sem reyndar á þessum tíma var morandi í glæpum og ein versta borg Bandaríkjanna í því tilliti. Það hefur sem betur fer lagast mikið síðan.“

Að því loknu kom Lauga heim og setti sig niður í Keflavík þar sem hún svo útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hún stundaði háskólanám í bæði hagfræði og lögfræði en fann sig ekki, aðstoðaði tannlækni um tíma en gerðist svo flugfreyja árið 2004.

Hún kynntist við það dönskum flugmanni, Mikael Lykkegaard Laursen sem fékk vinnu í Barein árið 2011. Þau eiga saman eiga þau eitt barn, Sebastian Sigfús, en Lauga á þrjár dætur að auki: Árnínu Lenu, Þóru Snædísi og Elvu Rut.

Barein gjörólíkt Sádi-Arabíu


Nágrannalandið Sádi-Arabía hefur orð á sér fyrir að vera íhaldssamt, einkum í réttindum kvenna. Lauga segir stöðuna aðra í Barein. „Barein er miklu opnara samfélag og mikið er af erlendu fólki búsett hér og við störf. Þetta er auðvitað múslimaland og bænir þeirra óma hér reglulega eins og í öðrum slíkum ríkjum en það eru engar svona alvarlegar hömlur á hinu og þessu eins og finnst í Sádi-Arabíu.

Þetta er miklu nær því að vera svipað og Abu Dhabi eða Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem vestrænn kúltúr er við lýði svona í og með og lítið um boð eða bönn af neinu tagi.

Það segir sig sjálft kannski að við elskum þetta land og allt við það enda erum við enn hér eftir tólf ár og ekkert á förum neitt. Hér er veðurfarið fyrir utan hásumarið alveg frábært, það kostar tiltölulega lítið að lifa og njóta og ótrúlega mikið um að vera flesta daga.“

Ný sýkt af golfbakteríunni


Lauga var þar síðasta haust valin kapteinn eða fyrirliði í golfklúbbi. Í því felst að vera andlit kvenna innan klúbbsins út á við auk þess að skipuleggja viðburði, innan klúbbs sem utan. Þannig hélt klúbburinn stórt alþjóðlegt mót í vetur.

Það er ekki síst merkilegt í ljósi þess að Lauga er tiltölulega nýbyrjuð í íþróttinni. „Það voru vinkonur mínar hér úti sem voru alltaf að reyna að draga mig með á völlinn en mér leist nú aldrei vel á þetta sport svo ég gaf þeim alls kyns afsakanir.

Svo kom bara að því að ég fann engar fleiri afsakanir einn daginn, fór með þeim eftir að hafa stolist ein á par 3 völlinn hér í grennd því ég vildi ekki að neinn sæi hversu léleg ég væri. Þar rakst ég á vinkonu mína með þáverandi kafteini í klúbbnum og þær vildu endilega fá mig með sér í hring. Ég hef nánast verið fastagestur á golfvellinum allar götur síðan.

Golfið er líka svo miklu meira en íþróttin sjálf eins og allir golfarar geta sagt þér. Það er heilmikið félagslíf í kringum þetta. Þessa fræga 19. hola við barinn er nánast krafa að leik loknum, allir opnir í spjall og mjög auðvelt að kynnast fólki í gegnum þetta sport. Ég reyni að fara alla daga ef ég kem því við“.

Lauga heldur enn tryggð við Norðfjörð og er gjarnan heima á sumrin, enda hitinn þá svo að segja óbærilegur í Barein. „Það er alltaf einn af hápunktum ársins að koma heim á æskuslóðirnar og ég nota hásumarið til þess því þá verður hitinn hér í Barein ekkert minna en óþolandi. Yfir þann tíma getur hitastigið hér hoppað upp í 50 stig og það er ekki mjög líft í þeim hita. Þannig að ég dríf mig þá heim og eyði alltaf tíma heima með fjölskyldu og fjölda vina sem ég á enn þá þar sem betur fer. Það fyllir mann alltaf af góðri orku að eyða tíma þar.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar