„Skipulags- og byggingamál eru nátengd minni listsköpun“
Myndlistarmaðurinn Aron Leví Beck opnar á laugardag sína fyrstu einkasýningu eftir að hafa flust austur á Reyðarfjörð fyrir um ári í húsnæðinu sem áður hýsti Austmat. Aron Leví kom austur til að taka við starfi skipulags- og byggingafulltrúa í Fjarðabyggð sem hann segir fara vel saman við myndlistina.„Skipulags- og byggingamál eru nátengd minni listsköpun. Þar eru litir og form. Starf skipulagsfulltrúans er skapandi, þar fær maður hugmyndir að því að betrumbæta byggðina meðan byggingafulltrúinn er meira í útgáfu leyfa og afgreiðslumálum.
Ég hef oft sagt frá því að þegar ég kláraði grunnskóla lærði ég málarameistarann og fór að mála hús. Mér fannst ekki nóg að mála þau heldur vildi ég hanna þau líka og fór þess vegna í byggingafræði. Þá vildi ég skipuleggja og fór þess vegna í meistaranám í skipulagsfræði.
En það dugði mér ekki að skipuleggja byggðina og þess vegna fór ég í stjórnmál, varð borgarfulltrúi og sat meðal annars í skipulagsnefnd. Síðan fór ég að mála hús á striga og var þá kominn einhvern súrrealískan hring,“ segir Aron Leví um sambland starfsferils síns og listarinnar.
Aron Leví, sem notar listamannsnafnið Albeck, er fæddur í Reykjavík en kallar sýninguna heima. „Fjölskyldan mín kemur frá Reyðarfirði og ég var hér öll sumur sem barn þannig ég þekki marga hér. Ég leit alltaf á mig á Reyðfirðing þótt ég byggi í Reykjavík. Beck-ararnir hafa verið á Reyðarfirði í margar kynslóðir þannig ég fæ þá tilfinningu hér að ég sé kominn heim.“
Annar þéttleiki á Búðarmelnum en í Þingholtunum
Uppistaðan í sýningunni eru abstrakt verk sem Aron Leví hefur málað eftir að hann flutti til Reyðarfjarðar í fyrra. „Ég er með tvo stíla. Annars vegar hef ég málað húsamyndir sem margir kannast við, hins vegar hef ég allan minn feril líka málað abstraktmyndir.
Þetta er mín sjötta einkasýning og á henni eru aðeins abstraktmyndir. Á fyrstu sýningunum átti ég það til að blanda saman þessum tveimur stílum en eftir sem því sem árin hafa liðið hef ég einbeitt mér að öðrum hvorum stílnum við sýningar.“
Aðspurður segir Aron Leví enn of snemmt að segja til um hvaða áhrif flutningarnir austur hafa haft á listsköpun hans þótt abstraktmyndirnar virðist hafa orðið fyrirferðameiri. „Það er töluverður munur á þéttleika byggðar í Þingholtunum og Búðarmelnum. Ég er samt búinn að mála húsamyndir af bæði Reyðarfirði og Norðfirði. Þeir bæir henta vel því þeir eru í brekku eins og Þingholtin.
Náttúran hér og fjöllin hafa auðvitað áhrif en ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á landslagsmálun. Innblásturinn birtist í abstraktmyndlistinni eftir hvernig manni líður hverju sinni. Ég er löngu hættur að keppast við hvort myndirnar séu flottar eða fallegar, þær eru bara það sem þær eru og hver og einn túlkar þær eftir sínu höfðu.
Þannig að tíminn verður að leiða áhrif búferlaflutninganna í ljós. Maður sér þróunina frekar eftir á yfir lengra tímabil.“
Framleiðslusalur verður sýningarrými
Sýningin veðrur að Óseyri 1c, þar sem matvælafyrirtækið Austmat var áður til húsa. „Afi minn, Hrafnkell Björgvinsson, vann þarna í gamla daga. Ég man eftir honum þar. Frændi minn er meðal eigenda að salnum í dag. Konan mín og vinkonur hennar höfðu fengið leyfi til að nýta salinn en á sama tíma var ég að leita eftir sal til að sýna í. Ég vildi halda fyrstu sýninguna mína á Austurlandi á Reyðarfirði.
Ég fékk aðgang að salnum, málaði og skúraði og síðan kom afi til að hjálpa mér við að hengja upp ljós. Ég er spenntur fyrir því að Reyðfirðingar og aðrir sem þekkja til hússins eða framleiðslunnar komi inn í hann og sjái flott rými sem mögulega sé hægt að nýta meira.“
Opnun sýningarinnar verður laugardaginn 9. september klukkan 17:00. Sýningin verður annars opin samkvæmt samkomulagi.