Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði fagnar tíu ára afmæli í dag

Í dag fagnar Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði tíu ára afmæli sínu með hátíðardagskrá.


Hátíð hefst klukkan 14:00 í dag með því að húsið verður opnað með pop-up kaffihúsi, Kaffi Kvarnar, og Margrét Arnardóttir flytur tónlist fyrir gesti áður en boðið verður upp á leiðsögn um húsið.


Formleg setning hátíðarinnar er svo klukkan 15:00 þar flutt verða erindi og tónlistarflutningur verður í höndum Jóhönnu Seljan og hljómsveitar.


Klukkan 17:00 verður útilistaverk Arngríms Sigurðssonar afhjúpað og dagskránni lýkur í kvöld með tónleikum Hatara í Sköpunarmiðstöðinni. Ókeypis aðgangur er að allri dagskránni.

Árið 2011 réðst kraftmikill hópur fólks með þau Rósu Valtingojer og Zdenek Patak í broddi fylkingar í það verkefni að breyta frystihúsi á Stöðvarfirði, sem var lokað árið 2005, í Sköpunarmiðstöðina. Stofnað var samvinnufélag um kaup og rekstur hússins og hófst þá uppbygging verkefnisins. Í dag veita þau Una Sigurðardóttir og Vinny Wood verkefninu forstöðu.

Signý Ormarsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, hefur fylgst með verkefninu frá upphafi. „Auðvitað er það í sjálfu sér afrek að halda þessari starfsemi úti í tíu ár. Sköpunarmiðstöðin fæddist skömmu eftir hrun, samfélagið á Stöðvarfirði var í sárum atvinnulega séð og það skal enginn halda að þetta hafi verið auðvelt fyrstu árin. Já, og það er raunar ekki auðvelt enn í dag að halda svona starfsemi úti, þótt allir viðurkenni, í það minnsta í orð, hversu mikilvæg hún sé,“ segir Signý á heimasíðu Austurbrúar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar